FH-ingar skoruðu þrjú manni færri

Kristján Flóki Finnbogason skoraði fyrsta mark FH í Egilshöll í …
Kristján Flóki Finnbogason skoraði fyrsta mark FH í Egilshöll í kvöld. mbl.is/Eva Björk

FH-ingar léku manni færri í 40 mínútur gegn Fjölni í fyrsta leik Lengjubikars karla í knattspyrnu á þessu tímabili, en unnu samt sem áður 4:0-sigur.

Íslandsmeistararnir komust yfir með marki Kristjáns Flóka Finnbogasonar um miðjan fyrri hálfleik, og var staðan 1:0 í hálfleik. Snemma í seinni hálfleik fékk Emil Stefánsson, sem verið hefur að láni frá FH í Fjarðabyggð síðustu tvö ár, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Manni færri komust FH-ingar í 2:0 með marki frá Sam Hewson eftir klukkutíma leik, og áður en yfir lauk höfðu Emil Pálsson og Atli Viðar Björnsson bætt við mörkum.

Liðin leika í 4. riðli A-deildar ásamt Leikni R., Leikni F., Þór og Þrótti R., en tvö efstu liðin komast áfram í 8-liða úrslit. Þróttur og Leiknir R. mætast í leik sem hófst nú kl. 21 í Egilshöll, þar sem leikur FH og Fjölnis fór einnig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert