Góð ákvörðun að koma í FH

Bergsveinn Ólafsson kom til FH frá Fjölni.
Bergsveinn Ólafsson kom til FH frá Fjölni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergsveinn Ólafsson lék vel í miðri vörn FH í sumar og var einn af lykilmönnum liðsins. Miðvörðurinn kom til FH frá Fjölni fyrir tímabilið og var á sínum stað í 1:1 jafntefli gegn ÍBV í lokumferð Pepsi-deildarinnar. Bergsveinn sér ekki eftir þeirri ákvörðun að koma í Kaplakrika.

„Þetta er klárlega stór hluti af því að ég ákvað að koma í þetta frábæra lið, þ.e. til að vinna titla og þetta var mjög góð ákvörðun,“ sagði brosmildur Bergsveinn að leik loknum.

FH hefur ekki skorað mikið af mörkum en varnarleikurinn hefur verið mjög sterkur. Þar hefur Bergsveinn verið í stóru hlutverki.

„Við höfum leikið góðan varnarleik, allt liðið og fengið á okkur mjög fá mörk. Það er lykillinn að því að vinna þennan titil.“

Það er ennþá pláss fyrir mikla bætingu í herbúðum FH að mati Bergsveins.

„Já, klárlega. Það er langt síðan FH vann bikarinn og það væri líka frábært að komast lengra í Evrópukeppninni. Það er klárlega markmiðið hjá klúbbnum og við ætlum að gera ennþá betur á næsta ári.“

Blaðamaður varpaði fram þeirri spurningu hvort að varnarmaðurinn sterki, sjái jafnvel FH fyrir sér sem stökkpall í sterkari deild og atvinnumennsku.

„Ég hef alltaf sagt að þegar maður fer fram úr sjálfum sér, þá fara hlutirnir að klikka. Ég er bara mjög ánægður í FH. Þetta er frábær klúbbur og frábær umgjörð. Hvort að vera mín hjá félaginu reynist stökkpallur, verðum við bara að bíða og sjá,“ sagði Bergsveinn Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert