Svíi í mark Grindavíkur

Malin Reuterwall.
Malin Reuterwall.

Sænski markvörðurinn Malin Reuterwall er gengin til liðs við Grindvíkinga, nýliðana í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, en hún kemur til þeirra frá Umeå.

Reuterwall er 26 ára gömul og hefur varið mark Umeå í sænsku úrvalsdeildinni undanfarin sex ár en þangað kom hún frá Västerås. Hún á að baki 58 leiki í deildinni með félaginu, þar af 10 á síðasta tímabili.

Þá hefur Reuterwall oft verið valin í landsliðshóp Svía en hún á að baki einn A-landsleik og níu leiki með sænska U23 ára landsliðinu.

Fyrir hjá Grindavík er Norður-írski landsliðsmarkvörðurinn Emma Higgins sem hefur varið mark Grindvíkinga undanfarin ár en þær Reuterwall og Higgins munu berjast um markvarðarstöðuna hjá Suðurnesjaliðinu á komandi leiktíð.

Þar með hefur Grindavík krækt í fjórar erlendar landsliðskonur fyrir komandi tímabil en áður hafði Carolina Mendes frá Portúgal og hinar brasilísku Thaisa M. Rosa og Rilany Aguilar samið við félagið.

Breytingar á íslensku liðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert