Skiptir ekki máli hvar leikmenn spila

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, sendi fjölmiðlum yfirlýsingu eftir að Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari gagnrýndi hann í viðtali í Fréttatímanum í dag.

Sjá frétt mbl.is: Finnst Freyr vera á hálum ís

Sagði Sigurður Ragnar meðal annars aðstæður til knattspyrnuiðkunar í Kína vera með þeim betri sem gerist í heiminum, bæði í karla og kvennaflokki. Sagði hann enn fremur margt benda til fordóma Freys og annarra í garð kínverskrar knattspyrnu en skömmu síðar dró Sigurður Ragnar þau orð til baka og baðst afsökunar á þeim. 

Þá tjáðu tvær landsliðskonur sig um málið sem hafa verið tengdar þessari umræðu, þær Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður Djurgården í Svþjóð, og Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður Portland í Bandaríkjunum, og sögðust vera fullfærar um að taka ákvarðanir um sinn feril sjálfar.

Yfirlýsingin frá Frey, sem lesa má í heild sinni hér að neðan, bendir hins vegar til þess að það skipti ekki máli hvar leikmenn spili upp á að vera valdir í landsliðið.

Yfirlýsing frá Frey:

Að gefnu tilefni.

Sem landsliðsþjálfari er ég í reglulegu sambandi við leikmenn landsliðsins um ýmis mál.  Það er mikilvægt að þær geti leitað til mín með hvað sem er, ráðgjöf eða annað. Þegar leikmenn leita til mín og spyrja hvað mér finnst, þá verða þær að geta treyst því að ég sé heiðarlegur í mínum svörum.

Það er þó alveg klárt mál að ég sem landsliðsþjálfari læt mér ekki detta í hug að stjórna því hvaða félagslið leikmenn ákveða að spila fyrir.

Þessir leikmenn eru sterkir karakterar, reynslumiklir leikmenn, og þær eru fullfærar um að taka þessar ákvarðanir sjálfar. Það eru leikmennirnir sjálfir sem ákveða hvar þeir spila í félagsliðum. 

Hlutverk landsliðsþjálfara er að undirbúa sitt lið og stýra því í verkefnum með það fyrir augum að ná sem bestum knattspyrnulegum árangri. Með það í huga vel ég alltaf það sem ég tel besta liðið hverju sinni. Í hvaða landi leikmenn eru að spila með félagsliði hefur ekki áhrif á það.

Virðingarfyllst og í von um að geta sett alla orku í réttan farveg.....undirbúning fyrir EM 2017.

Freyr Alexandersson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert