Sigurður Egill tryggði toppsætið

Sigurður Egill Lárusson skoraði þrennu í kvöld.
Sigurður Egill Lárusson skoraði þrennu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Egill Lárusson skoraði öll mörk Vals í 3:1 sigri á ÍA í Lengjubikarnum í knattspyrnu í dag. Valur tryggði sér toppsætið í riðlinum með sigrinum, en Skagamenn taka 2. sætið, þrátt fyrir tapið og eru bæði lið komin í 8-liða úrslit. 

Kristinn Ingi Halldórsson lagði upp fyrsta mark Sigurðar með góðri fyrirgjöf á 31. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Sigurður tvöfaldaði forskotið 20 mínútum fyrir leikslok með fallegu skoti í slánna og inn, en Þórður Þorsteinn Þórðarson minnkaði muninn úr víti, sjö mínútum fyrir leikslok. 

Valsmenn voru hins vegar ekki hættir og skoraði Sigurður Egill þriðja markið sitt og þriðja mark Vals í blálokin eftir skyndisókn. Valsmenn kláruðu riðilinn með fullt hús stiga, en þetta voru einu töpuðu stig Skagamanna.

Valur mætir liðinu sem verður í 2. sæti riðils 4, sem getur verið Stjarnan, Breiðablik eða Grindavík. ÍA mætir sigurvegaranum í riðli 2 sem verður KR eða Selfoss.

HK hafnar í 4. sæti riðilsins eftir 2:1 sigur á Víkingi Ólafsvík, Ásgeir Marteinsson kom HK yfir í byrjun leiks en Gunnlaugur Hlynur Birgisson jafnaði metin fyrir hálfleik. Andi Andri Morina skoraði sigurmark HK-inga rúmum tíu mínútum fyrir leikslok. Víkingur Ó. endar í 5. sæti riðilsins. Markaskorarar úr HK - Víkingur Ó. fengust á fotbolti.net. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert