Brasilía spilar á Laugardalsvelli

Íslenska landsliðið er á leið á EM í Hollandi í …
Íslenska landsliðið er á leið á EM í Hollandi í júlí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brasilíska kvennalandsliðið í knattspyrnu er væntanlegt til Íslands í sumar og spilar vináttuleik gegn Íslandi á Laugardalsvellinum 13. júní ef marka má frétt á vefsíðunni Womenssoccerunited.com.

Þar segir að lið Brasilíu sé á leið til Evrópu og spili þar gegn Spáni, Íslandi og Þýskalandi.

Þetta hefur ekki verið staðfest af KSÍ en Ísland mætir Írlandi á útivelli 8. júní. Íslenska liðið verður þarna í lokaundirbúningi sínum fyrir úrslitakeppni EM í Hollandi þar sem Ísland mætir Frakklandi í fyrsta leik 18. júlí.

Brasilíska landsliðið er í 9. sæti á styrkleikalista FIFA en Ísland er í 18. sæti. Þjóðirnar hafa aldrei mæst en minnstu munaði að til leiks þeirra kæmi í Algarve-bikarnum í Portúgal í mars 2016 þegar Ísland missti naumlega af því að mæta Brasilíu í úrslitaleik mótsins.

Marta, sem fimm sinnum hefur verið kjörin besti leikmaður heims, er þekktasti leikmaður brasilíska liðsins en hún lék hér á landi með Rosengård gegn Breiðabliki síðasta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert