Milos ekki lengi atvinnulaus

Milos Milojevic.
Milos Milojevic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Milos Milojevic hætti óvænt störfum sem þjálfari knattspyrnuliðs Víkings í Reykjavík á föstudaginn var strax varpað upp þeirri spurningu hvort hann færi ekki beina leið yfir í næsta bæjarfélag og tæki við þjálfaralausu liði Breiðabliks.

Þetta gekk allt eftir í gær. Milos var formlega leystur frá störfum hjá Víkingi fyrir hádegið og skömmu síðar var Breiðablik búið að kynna hann til leiks sem nýjan þjálfara meistaraflokks karla. Þar tekur hann við af Arnari Grétarssyni, sem var rekinn úr starfi á dögunum, en Sigurður Víðisson aðstoðarþjálfari stýrði Blikaliðinu í tveimur leikjum – sá seinni var sigurleikur gegn Víkingi í Fossvoginum í fyrrakvöld, 3:2. Þá var brotið blað í sögu deildarinnar þegar tvö þjálfaralaus lið áttust við.

Eftir því var tekið að Milos og Arnar voru báðir í stúkunni á Víkingsvellinum í fyrrakvöld. Milos var því strax byrjaður að skoða sitt nýja lið en hvort Arnar verður arftaki hans hjá Víkingi verður ekki fullyrt hér og nú. Þá yrði þetta orðið einhver sérkennilegasti þjálfarakapall Íslandssögunnar.

Milos tekur við Breiðabliki við botn deildarinnar, sem er óvænt staða miðað við spár. En liðið hefur aðeins leikið fjóra leiki og fékk fyrstu stigin í leiknum við Víking í fyrrakvöld. Flestir spáðu því fyrir mót að Kópavogsliðið yrði í efri hluta deildarinnar og miðað við mannskap ætti það að eiga alla möguleika á því.

Frumraun Milosar með liðið er heimaleikur gegn Víkingi frá Ólafsvík á sunnudaginn kemur. Hann hefur því þessa viku til að setja sig inn í málin í Kópavogi og leggja fyrstu drög að því að setja mark sitt á lið Breiðabliks.

Milos er aðeins fjórði þjálfari Breiðabliks frá 2006. Mestallan þann tíma var reyndar Ólafur H. Kristjánsson með liðið, eða í átta ár. Guðmundur Benediktsson var við stjórnvölinn frá júní og til loka tímabilsins 2014 en Arnar tók við því í kjölfarið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert