Vonandi verður ekki eins heitt og á Kýpur

Ana Victoria Cate.
Ana Victoria Cate. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið var í riðla í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í dag. Stjarnan var fulltrúi Íslands í drættinum og dróst á móti Osijek frá Króatíu, Klaksvík frá Færeyjum og Istatov frá Makedóníu og verða leikirnir spilaðir 22.-28. ágúst. Ana Victoria Cate, leikmaður Stjörnunnar, er ánægð með dráttinn, en hún var í liði Stjörnunnar sem komst í 32-liða úrslit fyrir tveimur árum. 

Hún rifjar upp undankeppnina fyrir tveimur árum, þegar Stjarnan mætti m.a Klaksvík. 

„Þetta er mjög góður dráttur, við vorum í efsta styrkleikaflokki og það hjálpaði. Ég veit ekki mjög mikið um liðin sem við mætum, en við mættum liðinu frá Færeyjum þegar við fórum til Kýpur fyrir tveimur árum og við spiluðum mjög vel og unnum 4:0. Það er gott að þekkja eitt lið.“

„Ég man að færeyska liðið var mjög líkamlega sterkt. Þær eru ekki með besta fótboltalið í heimi en þær börðust eins og ljón. Þær voru mjög sterkar og við verðum að spila okkar leik á móti þeim og ekki fara í þeirra leik og fara í einhver slagsmál. Þú verður að vera með mjög gott lið til að komast í Meistaradeildina. Þetta eru allt lið sem unnu deildina heima fyrir og við tökum öllum andstæðingum mjög alvarlega.“

Hún býst við að liðin frá Króatíu og Makedóníu séu líkamlega sterk, þó að hún viti lítið um gæði þeirra. 

„Ég veit að liðin í Króatíu og Makedóníu eru sterk og frekar dæmigerð miðað við fótboltann í Austur-Evrópu. Leikmennirnir eru líkamlega sterkir, en ég veit ekki mjög mikið um gæði þeirra.“

Ana er spennt fyrir því að fara til Króatíu í fyrsta skipti og segir hún markmiðið vera einfalt, komast í 32-liða úrslit. 

„Markmiðið er að fara áfram. Við förum til Króatíu til að vinna og komast í 32-liða úrslit. Vonandi gengur það eftir. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer til Króatíu og ég hef heyrt að það sé mjög fallegt þar, svo ég er spennt. Ég vona bara að það verði ekki eins heitt þar og var á Kýpur,“ sagði hún hlæjandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert