Annar sigur Fáskrúðsfirðinga á toppbaráttuliði

Kristófer Páll Viðarsson, skoraði fyrir Leikni í dag.
Kristófer Páll Viðarsson, skoraði fyrir Leikni í dag. mbl.is/Golli

Fáskrúðsfirðingarnir halda áfram að hrella toppliðin í 1. deild karla en Leiknir Fáskrúðsfirði lagði Þrótt Reykjavík óvænt að velli 3:2 í leik öðrum leiknum af tveimur í 1. deild karla, Inkasso-deildinni í knattspyrnu, í dag en hann fór fram í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.

Í hinum leiknum var það danski framherjinn Jeppe Hansen sem skoraði sigurmarkið fyrir Keflavík sem vann Þór í hörkuleik í suður með sjó, 1:0.

Þeir Viktor Jónsson og Kristinn Justiniano Snjólfsson skoruðu báðir tvívegis í dag fyrir sín lið fyrir austan.

Viktor kom Þrótti í 1:0 á 3. mínútu en Kristófer Páll Viðarsson jafnaði metin tveimur mínútum síðar. Mínútu seinna kom Kristinn Leikni í 2:1 en Viktor jafnaði leikinn á 30. mínútu.

Kristinn skoraði síðan sigurmarkið á 45. mínútu þar sem liðin stoppuðu í götin eftir fyrri hálfleikinn og seinni hálfleikurinn var markalaus.

Leiknismenn koma sér í 7 stig eftir sigurinn í dag en þeir unnu Fylki sem er í toppsætinu í þarsíðustu umferð. Þeir náðu ÍR sem er einnig með 7 stig en Grótta er nú á botninum með 5 stig. Þróttur hefur 16 stig, þremur minna en Fylkir.

Keflvíkingar hafa 15 stig í þriðja sæti eftir sigurinn í dag og hafa unnið þrjá leiki í röð. Þór hefur 9 stig í 9. sæti.

Markaskorarar eru fengnir frá Fótbolta.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert