„Ég er grautfúll“

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Gylfason var svekktur eftir að hans menn í Fjölni gerðu 1:1 jafntefli við Val í 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Fjölnir komst yfir á 16. mínútu með marki frá Birni Snæ Ingasyni en sjö mínútum fyrir leikslok jöfnuðu Valsarar úr vítaspyrnu Sigurðs Egils Lárussonar og þar við sat, 1:1.

„Við lögum mikið í þennan leik og stóðum okkur nokkuð vel gegn toppliði Vals. Við lögðum leikinn ágætlega upp og þó Valsarar hafi fengið nokkur ágæt færi þá jöfnuðu þeir ekki úr opnu spili,“ sagði Ágúst eftir leikinn en hann var ekki ánægður með vítaspyrnudóminn.

„Það var mikið um hrindingar í leiknum í báðar áttir. Það var komin ákveðin lína og svo kemur ein hrinding inn í teig, eina hrindingin sem ég hefði ekki viljað láta dæma á, og þá kemur víti,“ sagði Ágúst.

„Línan í leiknum var búin að vera hrindingar út og suður þannig að af hverju er dæmt á þetta? Úti á velli var mikið af hrindingum sem hefði var hægt að dæma á en það var ekki gert,“ sagði Ágúst.

Þrátt fyrir að hafa fengið á sig jöfnunarmarkið voru Fjölnismenn síst verri aðilinn í leiknum gegn toppliði deildarinnar.

„Það er gott að fá eitt stig á móti besta liði landsins en ég er grautfúll miðað við hvernig leikurinn spilaðist,“ sagði Ágúst.

Fjölnismenn eru í 9. sæti deildarinnar með níu stig og mæta KR í næstu umferð og segir Ágúst að það sé áskorun fyrir Fjölnismenn að rífa sig upp töfluna.

„Kannski voru Valsarar ekki að spila sinn besta leik og við að eiga toppleik en við erum bara í þessari stöðu núna. Þetta er áskorun um að rífa okkur upp og þetta er bara skemmtilegt verkefni þótt við séum í erfiðri stöðu,“ sagði Ágúst Gylfason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert