Grátlegt að fá svona mörk á sig

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er rosalega svekktur fyrir hönd drengjanna. Þeir lögðu mikið í þetta og það er grátlegt að fá svona mörk á sig. Ég veit ekki hvað gerðist, það er svo stutt síðan að þetta gerðist að ég á erfitt með að svara því.“ Arnar Þór Valsson, þjálfari ÍR, var að vonum virkilega svekktur eftir 2:1 tap gegn Þrótti í Inkasso-deildinni, 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. ÍR var með 1:0 forystu þangað til í uppbótartíma en þá skoraði Viktor Jónsson tvívegis. 

Arnar var sáttur með spilamennskuna, þrátt fyrir úrslitin. 

„Ég er búinn að vera það í síðustu leikjum en við þurfum að fara að ná í stig. Mér fannst við betri en Þróttararnir hérna en fáum ekki neitt út úr því. Það er betra að vera lélegri en andstæðingurinn og vinna. Við héldum skipulagi og vorum árásargjarnir. Við vorum að gera mjög vel í að keyra á þá og þessi leikur var mjög vel spilaður hjá okkur.“

Jonas Hansen frá Danmörku dæmdi leikinn í dag. Hann gaf sjö gul spjöld í leiknum. 

„Þegar það kemur dómari frá öðru landi þá er hann stundum ekki með öðruvísi línu og menn eru ekki með þær alveg á hreinu, það voru smá læti en þetta var ekki grófur leikur.“

Arnar og Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, rifust á hliðarlínunni í leiknum og urðu orðaskipti þeirra á milli. 

„Það var bara eins og það á að vera, við erum ekki vinir á meðan leikurinn er frekar en leikmennirnir, það er fínt að hafa smá læti í þessu.“

„Við getum tekið margt úr þessum leik eins og síðustu leikjum. Við verðum að vinna með það og það er okkar að vinna út úr því. Það sem við erum að gera er að virka mjög vel fyrir utan stigin. Við erum oft ekki síðri en andstæðingurinn en því miður erum við ekki að fá neitt út úr því.“

Það hefur gengið illa hjá Jóni Gísla Ström, aðal markaskorara ÍR, að koma boltanum í netið í sumar. 

„Það er ekkert að hrjá hann, stundum er þetta svona. Allir framherjar lenda stundum í frosti og hann er í því núna. Það er stutt í að hann losni úr því,“ sagði Arnar að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert