Erum bara slegin aftur niður

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við vorum bara rosalega lélegar varnarlega. Ef ég á að reyna horfa á þetta sem litla liðið gegn því stóra þá er hægt að tala um að við komum tvisvar til baka og klórum aðeins frá okkur en svo erum við bara slegin aftur niður,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Hauka, eftir 7:2 tap gegn Breiðablik í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Breiðablik skoraði tvö mörk strax á upphafsmínútum leiksins, var þá ekki reiðarslagið hreinlega strax komið?

„Það er alltof stórt fyrir þetta lið að fá á sig strax tvö mörk beint í andlitið þegar leikurinn er varla byrjaður.“

Marjani Hing-Glover er markahæsti leikmaður liðsins með fjögur mörk og hefur verið svona helsti sóknarmaður Hauka í sumar en hún spilaði sem miðvörður í kvöld, hvers vegna

„Sólveig [Stefanía Halldórsdóttir] er farin út, Sara [Rakel Hinriksdóttir] er veik og við vorum að hugsa hvernig við gætum haldið vörninni. Við erum það lið sem hefur fengið á sig flest mörk og þurfum því að reyna stoppa þetta. Okkur leist best á það að setja hana í vörn til að reyna stoppa í þessa leka hjá okkur. Þetta er vandamál hjá okkur og hún kom vel út á æfingum.“

Sæunn Björnsdóttir fékk þungt olnbogaskot í höfuðið frá Selmu Sól Magnúsdóttur í aðdraganda sjötta marks Breiðabliks og Kjartan var ekki sáttur með dómgæsluna þar.

„Mér fannst þetta bara rangt. Hún er slegin þarna og þó dómarinn sneri baki í þetta þá hefði línuvörðurinn getað flaggað á þetta. Við erum litla liðið og erum að tapa 5:2, það er ekki eins og staðan er 0:0. Við erum að drullutapa þessum leik og undir svona kringumstæðum þá hefði ég ekki, sem þjálfari hins liðsins, sett út á það ef það hefði verið dæmd aukaspyrna. Þetta voru bara höfuðmeiðsli, hún er enn þá með klakapoka á hausnum. Ég held að þetta hafi verið kolrangt hjá dómaranum í þetta skiptið.“

Haukar eru langneðstir í töflunni og hafa ekki unnið leik í sumar. Í næstu umferð mætir liðið Fylki sem er næstneðst í deildinni. Er það ekki besti möguleiki Hauka á að landa sigri?

„Ég er búinn að vera rembast við það að ná okkar fyrsta sigri. Þegar maður byrjar að vinna leiki þá fer maður að velta því fyrir sér hvort maður geti bjargað sér frá falli. Við vorum ansi nálægt því síðast á móti Fylki en þeir hafa styrkt sig töluvert og hafa fengið góðan þjálfara. Þetta verður bara hörkuleikur vonandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert