Fylkir gerði góða ferð norður

Fylkismenn fagna öðru marka sinna í sigri liðsins gegn Þór …
Fylkismenn fagna öðru marka sinna í sigri liðsins gegn Þór á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Fylkir fór með sigur af hólmi, 2:0, þegar liðið heimsótti Þór í Bogann á Akureyri í þriðju umferð í riðli 4 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Grindavík bar sigurorð af Selfossi, 2:1, í leik liðanna í sama riðli á Selfossi.

Það voru Oddur Ingi Guðmundsson og Hákon Ingi Jónsson sem skoruðu mörk Fylkis í sigrinum gegn Þór, en mark Hákons Inga kom úr vítaspyrnu.

Jóhann Helgi Hannesson kom Grindavík yfir gegn Selfossi, en Gilles Daniel Mbang Ondo sem gekk nýverið til liðs við Selfoss opnaði markareikning sinn fyrir liðið þegar hann jafnaði metin. Það var síðan færeyski landsliðsmaðurinn René Joensen sem skoraði sigurmark Grindavíkur.

Grindavík og Fylkir eru jöfn að stigum með sjö stig á toppi riðilsins, FH er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig, HK er í fjórða sæti riðilsins með tvö stig, Þór er í fimmta sæti riðilsins með eitt stig og Selfoss rekur lestina í riðlinum án stiga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert