Frá Selfossi í topplið í Noregi

Chanté Sandiford freistar þess að verja frá Söndru Maríu Jessen …
Chanté Sandiford freistar þess að verja frá Söndru Maríu Jessen í leik Selfoss og Þórs/KA. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Chanté Sandiford, sem hefur varið mark Selfyssinga í knattspyrnunni undanfarin þrjú ár, hefur samið til eins árs við næststerkasta lið Noregs, Avaldsnes. Hún staðfesti þetta við mbl.is í dag.

Sandiford, sem er 27 ára gömul og landsliðsmarkvörður Suður-Ameríkuríkisins Guyana, hefur leikið alla 54 leiki Selfyssinga í deildakeppninni undanfarin þrjú ár, 36 þeirra í úrvalsdeildinni, og var fyrirliði þeirra um skeið.

Avaldsnes er íslenskum knattspyrnuáhugamönnum ágætlega kunnugt en Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir léku með liðinu í fimm ár og Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark liðsins árið 2013. Liðið hefur endað í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar þrjú ár í röð og leikið í 32ja liða úrslitum Meistaradeildarinnar síðustu tvö ár.

Selfyssingar buðu ekki Sandiford nýjan samning eftir síðasta tímabil og hafa fengið Emmu Higgins, landsliðsmarkvörð Norður-Írlands, í hennar stað en Higgins hefur varið mark Grindavíkur undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert