„Best að segja sem minnst um það“

Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA.
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þjálfarar Þórs/KA og KR voru skiljanlega miskátir þegar mbl.is ræddi við þá eftir að Þór/KA vann 2:0-sigur á KR í fjórðu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

„Þetta var erfið fæðing, við vissum að þetta yrði þannig,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, eftir sigurinn. „KR-liðið er ótrúlega vel skipulagt, þær verjast mjög vel og á mörgum mönnum. Mér fannst fyrri hálfleikurinn ekki nógu góður hjá okkur. Við létum boltann ganga allt of hægt og stelpurnar voru bara ragar, en seinni hálfleikur var betri hjá okkur.“

Þór/KA þurfti að hafa þolinmæði í dag gegn sterkri vörn KR.

„Það var mikilvægt að sýna þolinmæði. Það verður svona í flest öllum leikjum þar sem liðin liggja svona til baka, sækja hratt á okkur og nýta föstu leikatriðin sín. Við erum alveg undirbúin undir það enda búinn að vinna alla leiki ennþá.“

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir lék í marki Þórs/KA í dag en liðið samdi á dögunum við sænskan markmann sem var á bekknum í dag. Var þetta síðasti leikur Bryndísar fyrir liðið?

„Það á bara eftir að koma í ljós. Best að segja bara sem minnst um það. Það getur vel verið að hún eigi eftir að dúkka upp ef á þarf en við sjáum bara til,“ sagði Halldór Jón við mbl.is.

Bojana Besic, þjálfari KR.
Bojana Besic, þjálfari KR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ætluðum okkur allavega eitt stig

„Það er alltaf erfitt að tapa,“ sagði Bojana Besic, þjálfari KR, við mbl.is eftir leikinn. Þrátt fyrir tapið spilaði liðið góðan varnarleik og Þór/KA gekk illa að skapa sér færi. Bojana var sátt með varnarleik sinna kvenna.

„Við mætum góðu liði í dag, við ætluðum allavega að fara héðan með eitt stig en það tókst ekki. Við erum að koma með meira skipulag í vörnina. Við náðum líka einhverjum sóknum, ekki hættulegum sóknum en náðum að koma með boltann yfir á þeirra vallarhelming en það endaði ekki vel í seinni hálfleik.“

Lilja Dögg Valþórsdóttir var í því hlutverki allan leikinn að dekka Stephany Mayor. Það gekk vel framan af en Stephany skoraði seinna mark leiksins. Aðspurð út í það sagði Bojana:

„Hún er mjög góður leikmaður og ein leið til að loka á hana var að setja mann á hana allan tímann. Hún sést ekki mikið í fyrri hálfleik og ekki það mikið í seinni hálfleik. En hún er með markanef og nær alltaf að vera á réttum stað.“

Eftir fjórar umferðir er lið KR með þrjú stig. Bojana segir það vera undir markmiðum liðsins:

„Við erum ekki alveg nógu ánægðar með það. Við vitum að það eru erfiðir leikir, eins og á móti ÍBV seinast og Þór/KA í dag. Þetta eru topplið. Við höldum áfram, það er nóg af leikjum eftir. Við ætlum bara að reyna safna eins mörgum stigum og við getum,“ sagði Bojana Besic við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert