Ég er ekki 20 marka maður

Baldur Sigurðsson fangar marki sínu í kvöld.
Baldur Sigurðsson fangar marki sínu í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þetta var ekki bara sigur, við héldum líka hreinu, það er stóra atriðið í dag. Ég hefði jafnvel verið sáttur við 0:0. Við vorum búnir að fá á okkur allt of mikið af mörkum," sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur á Fylki í 5. umferð Pepsi-deildarinnar í fótbolta í dag. 

„Sóknarleikurinn okkar var virkilega góður og sérstaklega í fyrri hálfleik. Við hefðum getað lokað leiknum þá enda fengum við mjög mikið af færum. Það var mjög mikið jákvætt í dag."

Stjarnan fékk aðeins þrjú stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum en hvað breyttist í kvöld? 

„Breytingin kom í síðasta leik. Þessi leikur er framhald af honum og það er styrkleiki hjá okkur að detta ekki niður eftir þann leik, hann útheimti gríðarlega mikla orku enda reyndum við að pressa Valsarana í heilan leik. Það sást í seinni hálfleik að við vorum pínu þreyttir. Nú jöfnum við okkur og erum spenntir að mæta Grindavík á sunnudaginn."

Baldur viðurkennir að hann var ekki sáttur við mjög gott færi sem Jonathan Glenn fékk í liði Fylkis snemma leiks í stöðunni 0:0. 

„Ég man vel eftir þessu færi. Mark þar hefði breytt leiknum en við sluppum. Það er klárlega eitthvað sem við þurfum að skoða, þetta var kæruleysi hjá okkur og eitthvað sem við ætluðum að koma veg fyrir."

Alltaf gaman að skora

Baldur skoraði þriðja mark Stjörnunnar og lagði upp annað í fyrri hálfleik, hann er ánægður með dagsverkið.

„Það er alltaf gaman, að öðru leyti hefði ég mátt vera öflugri í loftinu, en þetta var fínt. Það er alltaf gaman að skora, ég er ekki 20 marka maður á sumri, þannig það er gaman þegar mörkin detta."

Baldur dró sig mikið út á hægri kantinn og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann segir Fylkisvörnina hafa ráðið illa við hreyfanleika fremstu manna Stjörnunnar.  

„Það er meðvitað að við skiptum svolítið um stöður og þeir réðu illa við það í þriggja manna vörninni sinni. Stundum vissu þeir ekki hver átti að fara út í okkur og dekkningin hjá þeim ruglaðist, þess vegna fengum við svona mikið af færum í fyrri hálfleik," sagði Baldur Sigurðsson að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert