Gamla vesenið í bakinu

Sölvi Geir Ottesen er fyrirliði Víkinga.
Sölvi Geir Ottesen er fyrirliði Víkinga. mbl.is/Eggert

„Ég er með vesen í baki, bara þetta gamla,“  sagði Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkinga sem varð að fara af velli í fyrri hálfleik þegar lið hans tapaði 2:1 fyrir Fjölni í Víkinni í dag er leikið var í 6. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni.

„Ég fékk tak í bakið eftir eina sendingu í leiknum og var bara hálfur maður eftir það.  Ég hef verið að eiga við þetta allan minn feril og missti af leiknum við Fylki með það sama en mér finnst þetta koma full fljótt á eftir hvoru öðru.  Það tekur yfirleitt fjóra daga að ná mér eftir svona.“ 

Halldór Smári Sigurðsson, hinn turninn í hjarta varnar Víkinga, fór líka meiddur af velli. „Mér finnst þetta lýsandi hvernig leikurinn fer af stað.  Fjölnismenn fengu of mikinn tíma með boltann og við jafnvel ekki nógu ákveðnir þegar menn eru að dansa með boltann fyrir framan vörnina.  Það þarf að vera ákveðnari í slíkum málum.  Við þurfum að fara fá þrjú stig úr leik, annars færum við okkur neðar og neðar en ég hef fulla trú á mannskap okkar að hann komi sterkari eftir þennan leik,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert