Mögulegir mótherjar íslensku liðanna í Evrópu

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals taka þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í …
Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals taka þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar. mbl.is/Valgarður Gíslason

Á næstu dögum kemur það í ljós hverjum íslensku knattspyrnuliðin mæta í forkeppnum Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar.

Dregið verður fyrir fyrstu umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á morgun en Íslendingar eiga þar einn fulltrúa, ríkjandi Íslandsmeistara Vals. Á miðvikudaginn verður svo dregið fyrir fyrstu umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar en þar taka FH, Stjarnan og ÍBV þátt.

Íslendingaslagur í kortunum

Fimm lið eru mögulegir andstæðingar Valsara; þrjú frá Norðurlöndunum, eitt frá Póllandi og eitt frá Búlgaríu.

Norsku meistararnir í Rosenborg koma til greina en sóknarmaðurinn Matthías Vilhjálmsson er þar á mála. Sænsku meistararnir frá Malmö gætu líka orðið andstæðingar Vals og þar leikur einnig Íslendingur, Arnór Ingvi Traustason sem er nú í Rússlandi með íslenska landsliðinu á HM. Að lokum er það lið finnsku meistaranna í HJK Helsinki sem kemur til greina meðal Norðurlandaliðanna.

Einnig gætu Valsarar dregist á móti búlgörsku meisturunum frá Ludogorets Razgrad eða pólsku meisturum síðustu þriggja ára í Legia Warszawa.

Valsarar tóku síðast þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar sumarið 2008 og féllu þá úr leik í fyrstu umferð gegn BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi.

FH, Stjarnan og ÍBV í Evrópudeildinni

FH-ingar eru í efri styrkleikaflokki í forkeppni Evrópudeildarinnar og geta mætt þremur liðum frá Bretlandi. Einnig koma til greina Lahti frá Finnlandi og Luftëtari frá Albaníu. Frá Bretlandi eru það svo Cliftonville frá Norður-Írlandi, Shamrock Rovers frá Írlandi eða Connah's Quay frá Wales.

Stjarnan og ÍBV eru svo í neðri styrkleikaflokki. Eyjamenn geta mætt þremur Norðurlandaliðum; FC Kaupmannahöfn frá Danmörku, Häcken frá Svíþjóð eða Sarpsborg frá Noregi. Orri Sigurður Ómarsson er á mála hjá Sarpsborg en á láni hjá HamKam í sumar. Dundalk frá Írlandi og Hibernian frá Skotlandi koma einnig til greina og að lokum er Rudar Velenje frá Slóveníu einnig í pottinum.

Stjarnan getur dregist á móti Molde frá Noregi, Zalgiris Vilnius frá Litháen, Nömme Kalju frá Eistlandi, Fola Esch frá Lúxemborg eða Slavia Sofia frá Búlgaríu.

Eyjamenn urðu bikarmeistarar í fyrra og taka því þátt í …
Eyjamenn urðu bikarmeistarar í fyrra og taka því þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert