Fimmti sigur HK kom gegn Njarðvík

HK er á miklu skriði í Inkasso-deild karla í knattspyrnu …
HK er á miklu skriði í Inkasso-deild karla í knattspyrnu og vann sinn fimmta sigur í deildinni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þrír leikir fóru fram í áttundu umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. ÍR gerði sér lítið fyrir og vann 2:1 sigur á Fram á Laugardalsvelli þar sem að Guðmundur Magnússon kom heimamönnum yfir strax á 8. mínútu. Guðfinnur Þórir Ómarsson jafnaði hins vegar metin fyrir ÍR á 43. mínútu áður en Jón Gísli Ström skoraði sigurmark leiksins á 45. mínútu. Framarar eru áfram í fimmta sæti deildarinnar með 10 stig en ÍR er komið í ellefta sætið með 6 stig, einu stigi frá öruggu sæti.

Þá vann Víkingur Ólafsvík 2:0 sigur á Þór á Akureyri þar sem þeir Kwame Quee kom gestunum yfir á 77. mínútu og Ingibergur Kort Sigurðsson skoraði annað mark Ólsara á 79. mínútu. Þór er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig en Víkingur Ólafsvík er í þriðja sætinu með 16 stig.

Njarðvík tók svo á móti HK þar sem gestirnir úr Kópavogi fóru með sigur af hólmi, 2:0. Brynjar Jónasson skoraði fyrsta mark HK á 37. mínútu og Birkir Valur Jónsson bætti við öðru marki á 42. mínútu og 2:0 sigur HK staðreynd en liðið er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig, tveimur stigum minna en topplið ÍA. Njarðvík er hins vegar í áttunda sætinu með 9 stig eftir fyrstu átta umferðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert