Kári á leið til Tyrklands

Kári Árnason.
Kári Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, leikur ekki með Víkingi í Reykjavík seinni hluta tímabilsins eins og til stóð en hann er á leið til Tyrklands.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Víkingar sendu frá sér rétt í þessu. Kári kom heim úr atvinnumennsku í vor og samdi við Víkinga út tímabilið 2019 en hann spilaði með Aberdeen síðasta vetur.

Ekki kemur fram hvert félagið sé en á meðan HM í Rússlandi stóð yfir var Kári orðaður við Erzurum BB sem verður nýliði í tyrknesku úrvalsdeildinni á komandi keppnistímabili.

Tilkynningin frá Víkingum:

Knattspyrnudeild Víkings hefur veitt tyrknesku félagi heimild til að semja við Kára Árnason leikmann Víkings. Víkingur og Kári höfðu komist að samkomulagi um að leikmaðurinn myndi leika með félaginu í Pepsi-deildinni í sumar en jafnframt var samkomulag milli aðila um að ef Kára byðist tækifæri í atvinnumennsku hefði hann heimild til að skoða það. Tækifærið sem nú býðst Kára kom óvænt upp á síðustu dögum og var endanlega gengið frá samkomulagi í morgun um að Kári færi til Tyrklands. Það hefur frá upphafi verið stefna bæði Kára og Víkings að hann myndi spila með félaginu í sumar og einungis smávægileg meiðsli sem hafa komið í veg fyrir að svo hafi getað orðið.

Það tækifæri sem Kára hefur nú boðist gefur honum tök á að framlengja atvinnumannaferil sinn um eitt ár áður en hann snýr til Íslands á ný. Samkomulag er milli Víkings og Kára um að þegar hann snýr til baka frá Tyrklandi næsta vor þá muni hann leika fyrir Víking eins og til hafði staðið að hann myndi gera í sumar.

Víkingur þakkar Kára þann hlýhug sem hann hefur sýnt félaginu á liðnum mánuðum og óskar honum velgengni í því verkefni sem hann tekur sér nú fyrir hendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert