Ekkert eðlilegt í þessu máli – Huginn mætti ekki

Guðmundur Óli Steingrímsson skorar fyrir Völsung úr vítaspyrnu í 2. …
Guðmundur Óli Steingrímsson skorar fyrir Völsung úr vítaspyrnu í 2. deildinni í sumar. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

„Ef allt er eðlilegt verður Völsungi dæmdur sigur í þessum leik en það er svo sem ekkert eðlilegt í þessu,“ sagði Sigurður Hjörtur Þrastarson knattspyrnudómari í samtali við mbl.is í dag en Sigurður átti að dæma endurtekinn leik Hugsins og Völsungs í 2. deild karla í knattspyrnu sem fara átti fram klukkan 16:30 í dag.

Áfrýjunardómstóll KSÍ ákvað að leikurinn skyldi endurtekinn en leikur liðanna í ágúst var dæmur ógildur en honum lauk með 2:1-sigri Hugsins. Helgi Ólafsson dæmdi leikinn, en hann gaf Freyþóri Hrafni Harðarsyni ranglega rautt spjald í uppbótartíma í stöðunni 1:1. Helgi taldi sig hafa spjaldað Freyþór fyrr í leiknum og gaf honum því rautt spjald en eðli málsins samkvæmt átti Freyþór að fá gula spjaldið. Huginsmenn skoruðu svo sigurmark leiksins þegar fimm mínútur voru liðnar af uppbótartíma.

Sigurður Hjörtur Þrastarson, til hægri, átti að dæma leik Hugins …
Sigurður Hjörtur Þrastarson, til hægri, átti að dæma leik Hugins og Völsungs í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Allir meðvitaðir um að spila ætti á Fellavelli

Sú óvenjulega staða kom svo upp í dag að Huginsmenn mættu á Seyðisfjarðarvöll, eftir að hafa tilkynnt KSÍ í morgun, að völlurinn væri óleikfær. KSÍ færði því leikinn á Fellavöll, sem er varavöllur Hugins, og þangað mættu leikmenn Völsungs og dómarar leiksins í dag.

„Það sem ég held að hafi gerst var að í úrskurði KSÍ stendur að leikurinn skuli fara fram á Seyðisfjarðarvelli. Ég fæ svo meldingu um það, klukkan tíu í morgun, að það sé búið að breyta um leikstað og að leikurinn skuli fara fram á Fellavelli. Við dómararnir mætum svo á Fellavöll í dag, þar sem leikurinn átti að fara fram samkvæmt KSÍ. Þar bíðum við í tíu mínútur, eftir að leikurinn átti að hefjast eins og reglurnar gefa til kynna, og núna mun ég skila inn skýrslu til KSÍ. Það vissu allir málsaðilar að leikurinn átti að fara fram á Fellavelli. Það hefur áður gerst að leikir á Íslandi hafi verið settir á ákveðinn leikstað, og svo hefur því verið breytt og þá er bara mætt á þann völl,“ sagði Sigurður sem gat ekki svarað því hver viðbrögð KSÍ við málinu yrðu.

Brynjar Skúlason er þjálfari knattspyrnuliðs Hugins á Seyðisfirði.
Brynjar Skúlason er þjálfari knattspyrnuliðs Hugins á Seyðisfirði. Ljósmynd/Ómar Bogason

Leikurinn skal spilaður á Seyðisfjarðarvelli

Í dómsúrskurði KSÍ segir orðrétt: Leikur Hugins Seyðisfirði og Völsungs Húsavík í 2. deild sem lekinn var 17. ágúst 2018 á Seyðisfjarðarvelli er ógildur og skal endurtaka hann á Seyðisfjarðarvelli. Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, segir að hann og lærisveinar hans hafi ákveðið að fylgja eftir dómsúrskurðinum og þess vegna hafi liðið mætt til leiks á Seyðisfjarðarvöll í dag.

„Við tilkynntum KSÍ það í morgun að völlurinn okkar væri óleikfær en þar sem Knattspyrnusambandið krafðist þess að leikurinn myndi fara fram í dag þá hlýtur leikurinn að þurfa að fara fram á okkar velli, eins og segir í úrskurði æðsta dómstóls KSÍ. Við erum búnir að segja KSÍ okkar skoðun á þessu máli en þar sem þeir vilja endilega endurtaka leikinn, hlýtur það að vera eðlilegt að leikurinn fari fram á Seyðisfjarðarvelli. Það er vissulega ákvörðun KSÍ, hvort völlurinn sé leikfær eða ekki, en ef ég sjálfur réði einhverju hjá KSÍ þá væri þessi staða ekki komin upp,“ sagði Brynjar.

Völsungi verður því, að öllum líkindum, dæmdur sigur í þessum endurtekna leik og segir Brynjar að Huginsmenn muni kæra þann úrskurð.

Huginsmenn mættu til leiks á Seyðisfjarðarvelli í dag.
Huginsmenn mættu til leiks á Seyðisfjarðarvelli í dag. Ljósmynd/Ingólfur Sigurðsson

Hefur verið svínað á okkur trekk í trekk

„Ef okkur verður dæmdur ósigur í þessum leik þá munum við kæra þann úrskurð áfram. Við teljum okkur hafa staðið við dóm KSÍ í þessu máli. Þegar æðsti dómstóll KSÍ tekur það skýrt fram að leikurinn skuli fara fram á Seyðisfjarðarvelli þá finnst mér skrítið að Knattspyrnusambandið, sem gaf það mjög skýrt til kynna að gæti ekki haggað úrskurði æðsta dómstóls sambandsins, geti breytt um leikvöll. Við erum búnir að reyna fara löglegu leiðina og það hefur verið svínað á okkur trekk í trekk og þetta er okkar síðasta hálmstrá í þessum farsa.“

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, var nýbúin að heyra af stöðunni sem upp var komin þegar mbl.is heyrði í henni hljóðið.

„Við höfum fylgst vel með því sem hefur verið í gangi og við sáum það í dag að það var komin leikskýrsla á leikinn sem búið var að fylla út og við trúðum því að hann myndi fara fram. Svo koma þessar upplýsingar okkur í opna skjöldu. Það ber að hafa það í huga að þetta er mál sem kemur frá áfrýjunardómstóli KSÍ og það ber öllum aðilum að hlíta niðurstöðu dómsins, bæði Knattspyrnusambandinu og viðeigandi félögum. Það kemur vissulega fram í dómsorði að leikurinn skuli fara fram á Seyðisfjarðarvelli en hann var einfaldlega ekki leikfær í dag og þess vegna var leikurinn fluttur á Fellavöll og þar mættu allir nema Huginsmenn og leikurinn fór þess vegna ekki fram.“

Huginsmenn sendu KSÍ ljósmyndir af Seyðisfjarðarvelli í morgun þar sem þeir töldu völlinn óleikfæran og því ákvað Knattspyrnusambandið að færa leikinn á varavöll Hugins sem er Fellavöllur.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

Ákvörðun tekin innan KSÍ á morgun

„Fellavöllur er skilgreindur sem varavöllur Hugins og félagið tilkynnti okkur það í morgun að völlurinn væri óleikfær. Þeir sendu okkur meðal annars ljósmyndir, máli sínu til stuðnings. Leikurinn var þess vegna færður og við sendum báðum félögum tilkynningu um það. Við munum skoða þetta mál á morgun en venjan er sú, þegar lið mætir ekki til leiks, að mótherjum þess er dæmdur 3:0-sigur. Ég ætla hins vegar ekki að fullyrða um hvað við munum gera í þessu tiltekna máli og við munum taka ákvörðun um það á morgun,“ sagði Klara enn fremur en ef allt er eðlilegt, eins og áður hefur komið fram, verður Völsungi dæmdur 3:0-sigur í leiknum og þá mega Huginsmenn eiga von á því að fá fjársekt frá KSÍ fyrir að mæta ekki til leiks.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert