Ætla að loka þessu móti fyrst

Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óli Stefán Flóventsson hefur ekki safnað mörgum stigum með Grindvíkingum í seinni umferð Íslandsmótsins í fótbolta. Ekki var svo útlitið björgulegt eftir tæpar 20 mínútur gegn KA í dag. Þá var KA komið í 3:0 og brekkan orðin brött. Grindavík minnkaði muninn í 3:2 en staðan var 4:2 í hálfleik.

Óli, hvað lagðirðu upp fyrir seinni hálfleikinn?

„Það var bara fyrst og fremst að fara í grunngildin og koma sterkari inn í seinni hálfleikinn. Þessi byrjun hjá okkur var slæm en í 3:0 stöðunni er ég ánægður með strákana, hvernig þeir bættu sinn leik. Þetta var mjög sérstakur leikur þar sem þessi lið hafa verið þétt til baka og ekki gefið mörg færi á sér. Það hefðu auðveldlega getað komið þrjú mörk í viðbót á hvort lið. Það var bara þannig fílingur í þessu.“

Hvernig er staðan hjá þér varðandi áframhaldandi þjálfun?

„Ég er bara með mann í þessum málum fyrir mig og vil ekkert gefa upp með það. Það eina sem skiptir mig máli núna er að klára tímabilið með Grindavík. Ég hef unnið mjög náið með mörgum í kringum félagið og af virðingu við það fólk og mitt félag ætla ég að loka þessu móti. Það á bara að vera þannig.“

Þér hefur samt alltaf liðið vel í gulu og bláu, er það ekki?

„Jú, jú. Það eru mínir litir og hafa alltaf verið,“ sagði Óli Stefán mjög leyndardómsfullur í lok viðtalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert