Tapað fimm stigum í deildinni eftir bikarinn

Rúnar Páll Sigmundsson var svekktur í dag.
Rúnar Páll Sigmundsson var svekktur í dag. mbl.is/Valgarður Gíslason

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var augljóslega ósáttur með tap sinna manna í Vestmannaeyjum í Pepsi-deild karla í fótbolta í dag. Liðið kastaði frá sér góðum möguleika á því að verða Íslandsmeistari en nú er nánast enginn möguleiki fyrir liðið.

Með tapinu missti liðið Breiðablik einnig fram úr sér og er Stjarnan nú í þriðja sæti. 

„Maður er ekkert sérlega hress með það, við sem lið, leikmenn og þjálfarar erum ekkert ánægðir með það að tapa í Eyjum. Þetta eru mikil vonbrigði, satt að segja.“

Það hlýtur að vera gríðarlega svekkjandi fyrir Rúnar og félaga að sjá FH vinna Val og nýta sér ekki glufuna sem opnaðist þar fyrir liðið.

„Það er alveg satt, þetta er mjög svekkjandi, vel gert hjá FH. Við vorum daprir í dag og erum búnir að tapa fimm stigum í deildinni eftir að við urðum bikarmeistarar, það er ekki nógu gott,“ sagði Rúnar en Eyjamenn byrjuðu vel áður en að Stjörnumenn skoruðu og tóku þá yfir leikinn. Rúnar sagði það vera svekkjandi að ná ekki að setja annað markið.

„Mér fannst við spila sæmilega, það var jafnræði með liðunum í leiknum. Þeir skora tvö ágætismörk fyrir utan teig sem við hefðum getað varist betur og gert betur.“

Stjörnumenn skora mark á milli marka ÍBV þar sem þeir hefðu tekið forystuna í leiknum, sem var dæmt af.

„Ég sá ekkert að því marki en hann vill meina að það hafi verið eitthvert brot, það er ekkert hægt að gera í því núna. Við erum líka að fá dýr spjöld sem gera það að verkum að tveir leikmenn eru í leikbanni í næsta leik og það er ekki gott heldur hjá okkur. Það koma þó alltaf menn í manns stað.“

Níu spjöld litu dagsins ljós í dag, hvernig fannst Rúnari leikurinn dæmdur?

„Hann er bara að gera sitt besta, hann dæmdi leikinn ekkert spes en það er bara þannig, á báða bóga, held ég.“

Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar, meiddist í leiknum og setti Rúnar Þorstein Má Ragnarsson inn á völlinn. Þorsteinn spilar oftast á kantinum en hann var þó með Guðmund Stein Hafsteinsson framherja á bekknum.

„Þorsteinn hefur svipaða eiginleika og Guðjón, hann er snöggur og áræðinn. Við vildum fá það fram fyrst að Guðjón meiddist snemma í leiknum og er það ákvörðun sem við tókum.“

Breiðablik eru komnir upp fyrir Stjörnuna, er það einhver gulrót fyrir Stjörnuna að ná 2. sætinu?

„Við vorum að berjast um að vinna þennan titil, það var það sem við erum búnir að vera að gera í allt sumar. Það er erfiðara núna, þegar Breiðablik er komið yfir okkur og Valur líka, við þurfum bara að fara inn í síðasta leikinn og klára hann almennilega, fyrir okkur og okkar fólk,“ sagði Rúnar en hann var gríðarlega þakklátur fyrir stuðninginn sem liðið fékk í dag, þar sem margir stuðningsmenn Stjörnunnar komu til Eyja og fylgdust með leiknum.

„Frábær stuðningur og það er bara hundleiðinlegt að geta ekki fært þeim þrjú stig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert