Gerðu eins vel og hægt var

Sverrir Ingi Ingason og Eden Hazard.
Sverrir Ingi Ingason og Eden Hazard. AFP

Íslendingar luku keppni í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu án stiga og með markatöluna 1:13 í þokunni í Brussel í gærkvöld þar sem Belgar hrósuðu 2:0 sigri. Vængbrotið íslenskt lið gerði eins vel og það gat en eitt besta lið í heimi í dag var of stór biti fyrir okkar menn.

Sagan endalausa varðandi meiðsli í herbúðum íslenska liðsins hélt áfram alveg fram að leik því í upphituninni meiddist Alfreð Finnbogason og stöðu hans í byrjunarliðinu tók Arnór Ingvi Traustason. Alfreð var þar með tíundi leikmaður íslenska liðsins til að heltast úr lestinni vegna meiðsla.

Belgar réðu ferðinni í fyrri hálfleik en náðu lítið að skapa sér færi gegn vel skipulögðu liði Íslendinga sem voru mjög þétt fyrir í hjarta varnarinnar. Michy Batshuayi komst í tvö þokkaleg færi í fyrri hálfleiknum og í síðara skiptið fór boltinn í utanverða stöngina. Íslendingar áttu fáar sóknir í fyrri hálfleik en Albert Guðmundsson sýndi á köflum mjög laglega takta í hinum fáu sóknartilburðum íslenska liðsins en hann og hinn ungi peyinn í byrjunarliðinu, Arnór Sigurðsson, voru sprækir.

Hazard sprengdi upp vörnina

Síðari hálfleikurinn þróaðist mjög svipað og sá fyrri. Íslendingar voru sem fyrr í skotgröfunum og Belgar með boltann megnið af hálfleiknum. En það tók Belgana 65 mínútur að brjóta á bak aftur baráttuglatt lið Íslands. Hinn magnaði Eden Hazard var maðurinn á bak við það þegar hann sprengdi upp vörnina með glæsisendingu og Michy Batshuayi batt endahnútinn á sóknina. Hann var svo aftur á ferðinni á 81. mínútu þegar hann náði boltanum eftir mistök Hannsar Þórs Halldórssonar sem missti boltann frá sér eftir að hafa varið skot Belganna. Skömmu áður komst Albert Guðmundsson í gott færi og eina færi Íslands í leiknum en skot hans var ekki nógu gott og Courtois þurfti ekki að taka á honum stóra sínum.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert