Stærri prófraun ekki til

Íslenska landsliðið á æfingu á Stade de France í gær.
Íslenska landsliðið á æfingu á Stade de France í gær. AFP

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta stendur frammi fyrir nær ókleifu fjalli þegar það mætir heimsmeisturum Frakklands hér í París í kvöld. Eftir fínan 2:0-sigur á Andorra, áhugamannaliði í 132. sæti heimslistans, er komið að leik við besta lið heims á Stade de France kl. 19.45.

Frakkar eru langsigurstranglegasta liðið í H-riðli og hvert stig unnið gegn þeim mikill bónus í baráttunni um sæti í lokakeppni EM á næsta ári. Ætla má að sú barátta verði í raun barátta um 2. sæti við Tyrkland eða Albaníu, en tvö lið komast upp úr hverjum riðli. Ekkert er þó útilokað.

Ísland hefur unnið fáeina afar frækna sigra á útivöllum á síðustu árum. Má þar helst nefna 1:0-sigurinn á Hollandi í Amsterdam 2015 og 3:0-sigurinn á Tyrklandi haustið 2017, sem báðir voru algjörir lykilsigrar í að koma liðinu á stórmót. Liðið vann svo auðvitað Austurríki og England á EM 2016, fyrrnefnda sigurinn einmitt á Stade de France, og margir fræknir sigrar hafa unnist á Laugardalsvelli. Aldrei hefur liðið þó staðið frammi fyrir eins erfiðu verkefni og í kvöld og náð að fagna sigri. Stærri prófraun er ekki til. Jafnvel jafntefli myndi flokkast sem einn almesti sigur þessa landsliðs frá upphafi.

„Það er ástæða fyrir því að þeir eru heimsmeistarar. Það er erfitt að finna veikleika í þessu liði en við erum búnir að grandskoða þá vel og lengi og það er auðvelt því þessir leikmenn eru að spila í sjónvarpinu í hverri viku,“ segir Aron Einar Gunnarsson fyrirliði.

„Þetta er ólík áskorun frá síðasta leik. Við vitum að við munum ekki hafa boltann eins mikið og gegn Andorra og við þurfum að verjast almennilega. Við vitum að Frakkar geta leikið andstæðinginn grátt og hvaða leikmenn þeir hafa, sem spila í bestu liðum Evrópu. Við þurfum að vera vel meðvitaðir um hæfileikana þeirra, þetta verður erfitt en við trúum því alltaf að við getum náð góðum úrslitum. Þá þurfa allir að vera tilbúnir,“ segir Aron.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert