Sjokkerandi hvað við vorum slakir

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var ómyrkur í máli eftir tap …
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var ómyrkur í máli eftir tap sinna manna gegn HK í kvöld. mbl.is/Valli

„Ég vil byrja á því að biðja stuðningsmenn FH afsökunar á þessari frammistöðu hér í kvöld,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn FH í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

„HK átti sigurinn skilinn og ég vil óska þeim til hamingju en frammistaða FH í kvöld var hvorki liðinu né okkur í þjálfarateyminu sæmandi. Þetta var ákveðið sjokk hversu slakir við vorum í kvöld. Það var ýmislegt sem fór úrskeiðis í kvöld. Þegar að við fórum hátt að pressa þá urðum við opnir aftarlega á vellinum því liðið fylgdi ekki með. Við vorum ekki samstíga, sóknarleikurinn var hægur, ekkert tempó og við náðum aldrei neinu flæði í okkar leik. Það voru mjög margir sem voru slakir og þeir vita.“

Ráðaleysi FH-inga í kvöld var algjört og margir lykilmenn liðsins í sumar voru í vandræðum með fyrstu snertinguna sína og áttu einfaldlega hörmulegan leik.

„Við sóttum mikið inn í miðjuna í fyrri hálfleik í staðinn fyrir að nýta okkur kantana. Það var engin breidd og við fengum fáar fyrirgjafir. Okkur skorti fyrst og fremst lausnir og það var eitthvað panikk yfir spilamennskunni í seinni hálfleik. Við erum alltaf að æfa sömu hlutina aftur og aftur og kannski hef ég innprentað eitthvað fyrir leikinn í kvöld sem var rangt upplegg. Mitt hlutverk er að sjá hvað veldur þessari frammistöðu og af hverju við vorum svona slakir í kvöld, alveg eins og þegar að við eigum góðan leik.“

Brynjar Ásgeir Guðmundssin og Kristinn Steindórsson komu báðir inn á sem varamenn í stöðunni 2:0 en breiddin á bekknum hjá FH í kvöld var nánast engin.

„Við erum með lítinn hóp, það er alveg ljóst. Við missum Jákup í meiðsli og við vorum með fjórtán útileikmenn á æfingu í gær. Þórir Jóhann meiddist á æfingu í gær og Hjörtur Logi er meiddur. Ég vona að við náum að bæta við okkur framherja en hvort sem hann kemur eða ekki þá þurfa leikmenn og þjálfarar að stíga upp því þetta breytist ekki með einum senter. Menn þurfa að taka ábyrgð,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert