Get alltaf leitað til Olgu Færseth

Selfoss fagnar bikartitlinum í dag.
Selfoss fagnar bikartitlinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður ótrúlega vel. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur gegn frábæru KR-liði. Við höfðum þetta í dag og þetta gæti ekki verið sætara," sagði Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður Selfoss, eftir 2:1-sigur á KR í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í fótbolta í dag. 

„Ég vissi að þetta yrði 50/50 leikur. Þetta datt okkar megin í þetta skiptið. Við erum búnar að vera á skriði í allt sumar og við höldum því áfram. Við erum aldeilis búnar að vinna fyrir þessum titli," bætti hún við. Hólmfríður örvænti ekki, þótt KR hafi komist yfir í fyrri hálfleik. 

„Mér leið allan tímann vel. Ég vissi að við þyrftum bara að vera þolinmóðar og að við myndum fá færi. Okkur tókst að setja á þær rétt fyrir hálfleik sem setti tóninn fyrir okkur," sagði Hólmfríður, sem skoraði fyrra mark síns liðs. Það gerði hún með því að leika á fjölmarga leikmenn KR-inga og skora með skoti í slánna og inn. Hún var ekki viss hversu mörgum leikmönnum hún fór framhjá, áður en hún skoraði. 

Vissi að þær myndu setja tvo leikmenn á mig

„Ég er ekki alveg viss, en ég ákvað að keyra á þær. Ég vissi að þær myndu setja á mig tvo leikmenn allan leikinn. Þrátt fyrir að ég sé reynslumikil, þá þurfti ég að leita til enn reynslumeiri leikmanns. 

Ég hringdi í Olgu Færseth og hún gaf mér vel valin orð sem hjálpuðu mér að undirbúa mig betur fyrir leikinn. Hún sagði mér að keyra á vörnina og ég gerði það og ég tileinka henni markið. Þrátt fyrir að hún sé KR-ingur í dag erum við bestu vinkonur og hún er frábær knattspyrnukona og ég get alltaf leitað til hennar."

Selfoss hefur spilað afar vel eftir að Hólmfríður komst á fulla ferð með liðinu og hefur hún sjálf sjaldan spilað betur. 

„Ég hef alltaf trú og hef alltaf haft trú á því sem ég tek mér fyrir hendur. Selfossliðið hefur ákveðin gildi. Þau eru barátta, liðsheild, að gefst aldrei upp og að spila með hjartanu. Ef ég lýsi mér sem leikmanni þá hef ég öll þessi gildi. 

Ég er vön að vera með baráttu á vellinum og ég gefst aldrei upp. Það má segja að það sé ástæðan fyrir að ég smellpassa í þetta frábæra Selfosslið. Það hefur gengið vel að miðla minni reynslu til þeirra og fá þennan sigurvegara hugsunarhátt í þær. Maður fer í alla leiki til þess að vinna þá og maður verður að hafa trú," sagði Hólmfríður ákveðin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert