KF og ÍR með fullt hús á toppnum

Arian Ari Morina fagnar eftir að hafa skorað fyrir ÍR …
Arian Ari Morina fagnar eftir að hafa skorað fyrir ÍR gegn Völsungi á Húsavík. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

KF og ÍR eru með fullt hús stiga eftir tvær fyrstu umferðirnar í 2. deild karla í knattspyrnu en fimm leikir fóru fram í dag og einn í gærkvöld.

KF gerði góða ferð til Sandgerðis og lagði þar Reynismenn að velli, 2:0. Oumar Diouck og Theodore Wilson skoruðu mörkin.

ÍR sótti þrjú stig til Húsavíkur og vann þar Völsung 2:1. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Arian Ari Morina og Jörgen Pettersen fyrir ÍR-inga áður en Sæþór Olgeirsson minnkaði muninn fyrir Völsung.

Haukar gerðu það gott austur á Reyðarfirði þar sem þeir sigruðu Leikni frá Fáskrúðsfirði 5:2 í Fjarðabyggðarhöllinni. Haukar voru 1:0 yfir í hálfleik á sjálfsmarki en Stefán Ómar Magnússon jafnaði fyrir Leikni. Þá tók Tómas Leó Ásgeirsson sig til og skoraði þrennu fyrir Hauka og Anton Freyr Hauks bætti við fimmta markinu áður en Björgvin Stefán Pétursson lagaði stöðuna fyrir Leikni.

Í Vogum gerðu Þróttur V. og Fjarðabyggð jafntefli, 1:1, Miðvörðurinn reyndi og aðstoðarþjálfarinn Andrew Pew kom Þrótturum yfir í fyrri hálfleik en Króatinn Vice Kendes jafnaði fyrir Austfirðinga í þeim síðari.

Magni og Njarðvík skildu jöfn, 2:2, í Boganum á Akureyri. Dominic Vose skoraði bæði mörk Magna en Bergþór Ingi Smárason og Magnús Þórðarson gerðu mörk Njarðvíkinga.

Þá endaði bráðfjörugur leikur Kára og KV í Akraneshöllinni á föstudagskvöld með jafntefli, 4:4. Marinó Hilmar Ásgeirsson skoraði þrjú fyrstu mörk Kára og Martin Montipo það fjórða úr vítaspyrnu. Kristján Páll Jónsson, Askur Jóhannsson og Ingólfur Sigurðsson gerðu þrjú fyrstu mörk Vesturbæinga og það fjórða gerði Þorsteinn Örn Bernharðsson á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

KF og ÍR eru með 6 stig, KV 4, Völsungur, Haukar og Reynir 3, Njarðvík og Þróttur V. 2, Kári, Magni og Fjarðabyggð eitt en Leiknir er án stiga.

Þá var önnur umferðin í 3. deild karla leikin frá fimmtudegi til laugardags og úrslit urðu þessi:

Tindastóll - Höttur/Huginn 2:3
Augnablik - Ægir 1:1
Einherji - KFG 0:2
Víðir - KFS 3:2
ÍH - Dalvík/Reynir 3:3
Sindri - Elliði 2:3

Höttur/Huginn er með 6 stig á toppnum, Augnablik 4, Dalvík/Reynir 4, Ægir 4, KFG 3, Elliði 3, KFS 3, Víðir 3, ÍH 1, Tindastóll 0, Sindri 0 og Einherji 0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert