Nánast eins og að lenda í bílslysi

Orri Sigurjónsson í leik með Fram síðasta sumar.
Orri Sigurjónsson í leik með Fram síðasta sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Orri Sigurjónsson, leikmaður Fram í knattspyrnu, hefur ekkert komið við sögu með liðinu það sem af er tímabili.

Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins, sagði í samtali við mbl.is eftir tap gegn Víkingi í kvöld að Orri hafi fengið þungt höfuðhögg í vetur sem hefði haldið honum frá keppni í langan tíma.

„Orri fékk slæman heilahristing, það er orðið ansi langt síðan. Þetta var í æfingaleik snemma á árinu. Hann fékk boltann í andlitið þegar hann var ekki að fylgjast með, þetta er nánast eins og að lenda í bílslysi því þú færð svona hálshnykk (e. whiplash). Þetta kom honum að óvörum og boltinn kom af mjög stuttu færi. 

Hálsinn og aftan í hnakkanum hefur bara verið mjög slæmur og hann er búinn að vera hjá sérfræðingum í nokkra mánuði. Hann er fyrst núna í þessari viku, og bara frá og með morgundeginum í rauninni, að taka þátt í fullri æfingu. Hann er klár í að byrja að æfa með liðinu núna.“

Orri gekk til liðs við Fram fyrir síðasta tímabil frá uppeldisfélagi sínu Þór. Hann verður þrítugur á árinu en á ferli sínum á hann 33 leiki í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert