Ronaldo ekki með gegn Man. Utd

Cristiano Ronaldo þarf að hvíla sig aðeins lengur.
Cristiano Ronaldo þarf að hvíla sig aðeins lengur. AFP

Portúgalinn Cristiano Ronaldo mun ekki geta leikið með Real Madrid gegn Manchester United á morgun í Meistarabikarnum, æfingamótinu sem fram fer í Bandaríkjunum þessa dagana.

Ronaldo er að jafna sig af meiðslum en hann er snúinn aftur til æfinga eftir að hafa fengið frí í kjölfar HM.

„Hann er búinn að vera að æfa einn, ekki með liðinu, en hann mun ekki spila á morgun. Hann mun æfa áfram þegar við komum til Madridar því við ætlum að láta hann spila í spænska ofurbikarnum,“ sagði Carlo Ancelotti, stjóri Real.

„Áætlunin varðandi Ronaldo hefur gengið upp. Við gáfum honum mánuð til að hvíla sig og hann byrjaði aftur 26. júlí, en hann verður að jafna sig alveg og þess vegna tökum við enga áhættu á morgun,“ sagði Ancelotti.

Leikur United og Real er í A-riðli mótsins en sigurlið riðilsins mætir sigurliði B-riðils í úrslitaleik. Real er aðeins með eitt stig eftir hina tvo leiki sína og getur því ekki náð efsta sætinu, en United er á toppnum með 5 stig. Roma og Inter hafa 3 stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert