Ferdinand reiknar með að hætta

Rio Ferdinand í leik með QPR.
Rio Ferdinand í leik með QPR. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu sem nú leikur með QPR, gerir ráð fyrir því að leggja skóna á hilluna að þessu keppnistímabili loknu.

Ferdinand, sem verður 36 ára í næsta mánuði, mun hafa sagt þetta í útvarpsviðtali sem verður birt á morgun í þættinum The Jonathan Ross Show hjá ITV. Efni viðtalsins hefur lekið út til enskra fjölmiðla.

„Ég reikna með því að hætta eftir þetta tímabil. Ég óttast ekki endalok ferilsins, ég hlakka til því ég sé svo margt spennandi sem gæti gerst í framhaldi af því,“ er haft eftir Ferdinand, en hann kveðst hafa áhuga á að tengjast fótboltanum áfram og sé m.a. að mennta sig í þjálfun.

Hann lék sin fyrsta deildaleik vorið 1996, með West Ham, og lék þar til ársins 2000 þegar Leeds keypti hann fyrir 18 milljónir punda. Tveimur árum síðar var Ferdinand seldur til Manchester United fyrir 34 milljónir punda, en í hvorum tveggja þessum félagaskiptum var hann dýrasti varnarmaður heims á þeim tíma.

Ferdinand vann 11 stóra titla á 12 árum hjá United en þar hætti hann í vor og samdi síðan við QPR. Hann ætti að óbreyttu að ná sínum 500. leik í ensku úrvalsdeildinni í vetur en Ferdinand lék 81 landsleik fyrir Englands hönd á árunum 1997 til 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert