Ekki fleiri reknir í þrettán ár

Ian Holloway og Paulo Di Canio hafa báðir verið látnir …
Ian Holloway og Paulo Di Canio hafa báðir verið látnir fara á síðustu árum. AFP

Á nýafstöðnu tímabili voru fleiri knattspyrnustjórar látnir taka poka sína í fjórum efstu deildum Englands en síðustu þrettán ár, en þeir voru 47 talsins í vetur. Er það næst hæsta hlutfallið síðan enska úrvalsdeildin var stofnuð.

BBC tók þetta saman. Í ensku B-deildinni var sett met þar sem 20 þjálfarar látnir fara, og ef meðþjálfarar þeirra eru taldir með var fjöldi þeirra um 150.  Til að mynda lét Leeds fjóra stjóra fara og Watford gerði slíkt hið sama. Fimm voru látnir fara í úrvalsdeildinni, miðað við tólf á síðasta tímabili.

„Við viljum ekki að eigendur haldi að þetta sé eitthvað spilavíti,“ segir Richard Bevan, formaður ensku þjálfarasamtakanna, en hann hefur þungar áhyggjur af þessari þróun í heild.

„Þetta auk 12 afsagna hefur haft áhrif á um 200 fjölskyldur, það eru gríðarlega margir sem hafa misst sína atvinnu í vetur. Einungis sex af þeim eru komnir aftur í vinnu svo þetta er ekki gæfulegt ástand. Þetta er mjög erfiður bransi og ekkert atvinnutraust,“ sagði Bevan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert