Alfreð sleppur við Sánchez og Cazorla

Alexis Sánchez þykir einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar.
Alexis Sánchez þykir einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar. AFP

Það kemur betur í ljós eftir skoðun á miðvikudaginn en reiknað er með því að Alexis Sánchez muni ekki spila með Arsenal næsta mánuðinn eða svo eftir að hafa meiðst í læri gegn Norwich í gær.

Þetta fullyrðir Daily Telegraph í frétt sinni nú síðdegis. Blaðið segir ljóst að Sánchez missi af leiknum mikilvæga við Alfreð Finnbogason og félaga í Olympiacos í næstu viku, sem sker úr um hvort liðið kemst áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Telegraph segir að Santi Cazorla muni einnig missa af leiknum við Olympiacos en hann meiddist í hné í leiknum við Norwich og er óttast að hann hafi skemmt liðbönd.

Theo Walcott gæti aftur á móti hugsanlega snúið aftur eftir meiðsli í leiknum við Sunderland um næstu helgi, og þeir Laurent Koscielny og Kieran Gibbs ættu að snúa aftur til æfinga í þessari viku sömuleiðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert