Meiðslin Wenger að kenna

Arsene Wenger hefur legið undir gagnrýni vegna tíðra meiðsla lykilleikmanna …
Arsene Wenger hefur legið undir gagnrýni vegna tíðra meiðsla lykilleikmanna liðsins. AFP

Hollenski styrktarþjálfarinn Raymond Verheijen segir að tíð meiðsli leikmanna Arsenal séu til komin vegna aðferða Arsene Wenger, knattspyrnustjóra félagsins, við æfingar liðsins og leikjaálags.

Verheijen kallar eftir því að Wenger bregðist við meiðslavandræðunum og hætti að kenna öðrum um. 

Hollendingurinn hefur áður gagnrýnt Wenger fyrir slíkt hið sama, en það gerði hann til að mynda þegar Theo Walcott og Alex Oxlade-Chamberlain bættust á meiðslalista Arsenal í október. 

Meiðsli Alexis Sánchez, Santi Cazorla og Laurent Koscielny í nóvember urðu til þess að Verheijen ákvað að hnýta í Wenger að nýju. 

Sánchez and Cazorla munu missa af mikilvægum leik Arsenal gegn Olympiacos í næstu viku og Joel Campbell er nú eini útispilarinn í 23 manna hópi aðalliðs Arsenal sem hefur ekki glímt við meiðsli árið 2015.

Verheijen segir að Wenger verði að horfast í augu við að aðferðir hans við æfingar auki hætti á meiðslum hjá leikmönnum hans.  

„Arsenal hefur spilað skemmtilegan fótbolta í áraraðir og þegar ellefu sterkustu leikmenn liðsins eru til taks geta þeir unnið hvaða lið sem er og gert tilkall til þess að verða enskir meistarar og fara langt í Meistaradeild Evrópu. En það heyrir til undantekninga að þeir geti stillt upp sínu sterkasta liði,“ segir Verheijen á twitter síðu sinni:

„Allir 23 útispilarar aðalliðs Arsenal hafa glímt við meiðsli á árinu 2015 fyrir utan Joel Campbell, en Wenger neitar enn að horfast í augu við vandann og leitar sífellt að afsökunum. Vandamálið liggur í því að Wenger horfir ekki á heildarmyndina og einblínir þess í stað á úrslit leikja,“ segir Verheijen enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert