Fótboltafélag til sölu á Ebay

Camorse Stadium, heimavöllur Basingstoke Town, en þar hefur félagið leikið …
Camorse Stadium, heimavöllur Basingstoke Town, en þar hefur félagið leikið frá 1945. Ljósmynd/basingstoketown.net

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Basingstoke Town hafa farið óvenjulega leið til að láta vita að það sé til sölu en hægt er að bjóða í það á uppboðsvefnum Ebay.

Fyrsta boð var sett á 99 pens (100 pens eru í einu pundi, sem er um 140 ísl. krónur) og uppboðið á að standa til 13. desember. Ebay lokaði hins vegar fyrir tilboðin tímabundið eftir fimm klukkutíma því nokkur tilboðanna, það hæsta 66 þúsund pund, fóru yfir öryggismörk vefjarins.

Félagið leikur í sjöundu efstu deild Englands og glímir við mikinn fjárhagsvanda. Það skuldar um tvær milljónir punda og núverandi stjórnarformaður ætlar að hætta í vor eftir að hafa haldið félaginu uppi fjárhagslega í 25 ár.

„Heimsbyggðin þarf að fá að vita að félagið sé til sölu. Ef við finnum engan kaupanda veit enginn hvað verður um félagið. Það gæti lognast út af. Þetta er félag með langa sögu og mikla hefð og besta leiðin ti lað halda því gangandi er að láta fréttast um heiminn að það sé til sölu,“ sagði Simon Hood, stuðningsmaður Basingstoke og fyrrverandi stjórnarmaður, sem stendur á bak við uppátækið. Hann lofaði því að öll tilboð yrðu skoðuð gaumgæfilega.

Basingstoke er 120 ára gamalt félag, stofnað árið 1896. Í lýsingu á Ebay er sagt að félagið sé „notað“, á því sjáist eflaust eitthvað og það sé aðeins til sölu fyrir safnara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert