Við gætum stólað á Eggert

Eggert Gunnþór Jónsson á að baki 19 A-landsleiki.
Eggert Gunnþór Jónsson á að baki 19 A-landsleiki. mbl.is/Ómar

Norska úrvalsdeildarfélagið Viking hefur mikinn áhuga á að fá knattspyrnumanninn Eggert Gunnþór Jónsson í sínar raðir. Hugsanlegt er að hann komi til félagsins nú í janúar.

Þetta staðfestir Ian Burchnall, þjálfari Viking, í samtali við Aftenbladet. Eggert, sem á að baki 19 A-landsleiki fyrir Ísland, er leikmaður Fleetwood Town í ensku C-deildinni. Þar leikur hann undir stjórn Uwe Rösler, fyrrverandi stjóra Viking. Eggert er með samning við félagið sem rennur út í sumar og gera forráðamenn Viking sér vonir um að geta keypt hann nú í janúar.

Eggert hefur ekki átt fast sæti í liði Fleetwood að undanförnu en leikið 12 leiki á tímabilinu. Burchnall og félagar sjá fyrir sér að Eggert geti tekið stöðu miðvarðar hjá liðinu.

„Nafnið hans kom upp fyrir nokkru síðan. Eggert getur líka spilað á miðri miðju og ég get staðfest að hann er mjög spennandi kostur fyrir okkur,“ sagði Burchnall við Aftenbladet. Spurður hvort leikmaður sem væri kominn á bekkinn hjá liði í ensku C-deildinni væri nægilega góður fyrir Viking, svaraði Burchnall:

„Já, það er ég sannfærður um. Það geta verið fleiri ástæður fyrir því að hann er ekki að spila, til dæmis það að samningur hans er að renna út og hann er ekki hluti af framtíðaráætlunum félagsins. Ég veit hvað við fáum í Eggerti Jónssyni. Þetta er leikmaður sem við gætum stólað á,“ sagði Burchnall.

„Við erum í viðræðum um kaup. Líklega fáum við hann í heimsókn til Stavanger í lok þessarar viku. Þá getum við kynnst og Eggert séð aðstæður hérna,“ sagði Burchnall.

Eggert hefur leikið með Fleetwood frá sumrinu 2015 eftir skamma dvöl hjá Vestsjælland í Danmörku, eftir að hafa komist af stað að nýju eftir meiðsli. Hann hóf atvinnumannsferilinn 18 ára gamall hjá Hearts í Skotlandi árið 2005 eftir að hafa leikið með Fjarðabyggð, og var í Skotlandi til ársins 2012 þegar hann samdi við Wolves. Hann hefur einnig leikið með Charlton og Belenenses í Portúgal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert