Bikarævintýri Sutton er lokið

Maxime Biamou og Nacho Monreal í baráttu um boltann.
Maxime Biamou og Nacho Monreal í baráttu um boltann. AFP

Bikarævintýri utandeildaliðsins Sutton United lauk í kvöld þegar það tapaði fyrir Arsenal á heimavelli sínum, Borough Sports Ground, 2:0, í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Lucas Perez skoraði fyrra mark Arsenal á 27. mínútu og Theo Walcott bætti við öðru marki á 55. mínútu sem var hans 100. fyrir Arsenal.

Leikmenn Sutton United geta verið stoltir af frammistöðu sinni. Þeir börðust eins og ljón og náðu nokkrum sinnum að ógna marki úrvalsdeildarliðsins og um miðjan seinni hálfleik þrumaði Roarie Deacon boltanum í þverslá Arsenal marksins. Maður leiksins var valinn Roarie Deacon leikmaður Sutton United en hann er fyrrum leikmaður Arsenal.

Arsenal mætir öðru utandeildaliði í átta liða úrslitunum en Lincoln, sem sló Burnley út úr keppninni á laugardaginn sækir Arsenal heim á Emirates Stadium.

Bein lýsing frá leiknum:

90+3 Leiknum er lokið með 2:0 sigri Arsenal.

74. Sílemaðurinn Alexis Sánchez er kominn inná í liði Arsenal.

65. Sláin! Minnstu munaði að Sutton tækist að minnka muninn en þrumufleygur frá Roarie Deacon small í þverslánni.

55. MARK! Arsenal er að gera út um leikinn. Theo Walcott skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Monreal.

46. Síðari hálfleikurinn er hafinn.

45+2 Það er kominn hálfleikur á Borough Sports Ground þar sem Arsenal er 1:0 yfir gegn baráttuglöðu utandeildarliði Sutton. Arsenal hefur ráðinni ferðinni lengst af leiksins en hefur ekki náð að skapa sér mörg færi.

44. Ospina markvörður Arsenal gerði sig sekan um mistök. Spyrna hans frá markinu fór beint til leikmanns Sutton sem fór illa með færin og skaut vel framhjá markinu.

27. MARK!! Arsenal er búið að brjóta ísinn. Spánverjinn Lucas Perez skoraði með hnitmiðuðu skoti og boltinn lá í markhorninu. Þetta var sjötta mark Spánverjans með Arsenal á tímabilinu en eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag er hann ekki sáttur í herbúðum Lundúnaliðsins og vill fara frá liðinu í sumar.

20. Leikmenn utandeildarliðsins hafa barist eins og ljón og staðan er enn markalaus. Arsenal gengur illa að finna glufur í vörn heimamanna.

10. Staðan er, 0:0. Leikurinn fer rólega af stað. Arsenal hefur haft boltann meira og minna en hefur ekki náð að skapa sér færi enn sem komið er.

1. Leikurinn er hafinn. Það er uppselt á völlinn í kvöld en hann tekur rúmlega 5 þúsund manns.

Liðin stilla sér upp fyrir leikinn.
Liðin stilla sér upp fyrir leikinn. AFP

Lið Sutton: Worner, Amankwaah, Downer, Collins, Beckwith, Deacon, Bailey, Eastmond, May, Gomis, Biamou.

Lið Arsenal: Ospina, Gabriel, Mustafi, Holding, Monreal, Elneny, Xhaka, Lucas, Reine-Adelaide, Iwobi, Walcott.

0. Sigurliðið úr leiknum í kvöld tekur á móti utandeildarliðinu Lincoln í átta liða úrslitunum en Lincoln gerði sér lítið fyrir og sló úrvalsdeildarlið Burnley úr leik.

0. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tvö félög mætast á knattspyrnuvellinum.

0. Sutton United er í fyrsta sinn frá upphafi í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

0. Arsenal er mikið bikarlið og er það félag sem hefur unnið bikarinn oftast allra eða 12 sinnum, síðast árið 2015 þegar liðið burstaði Aston Villa á Wembley, 4:0. Arsenal hefur unnið 17 af síðustu bikarleikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert