Viss um að Swansea nái í mikilvæg stig

Paul Clement á hliðarlínunni.
Paul Clement á hliðarlínunni. AFP

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, er viss um að liðið geti bjargað sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar mæta Manchester United á sunnudag.

„Við eigum fjóra leiki eftir. Leikmennirnir eru sjálfsöruggir og ég er það líka að við getum náð í mikilvæg stig í öllum leikjunum. Það verður gaman að mæta á Old Trafford, en það sem ég vil er að liðið standi sig sem best,“ sagði Clement, en lærisveinar hans unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Stoke í síðustu umferð.

„Leikmennirnir sýndu gegn Stoke að þeir geta staðið sig vel þrátt fyrir stress og pressuna, sem er mikil,“ sagði Clement á fréttamannafundi í dag.

Swansea er sem stendur í 18. sæti og fallsæti með 31 stig, tveimur stigum á eftir Hull sem er í 17. sæti. Þar fyrir ofan er svo Burnley með fimm stigum meira en Swanea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert