„Barcelona mun vakna á ný“

Pep Guardiola á Laugardalsvelli.
Pep Guardiola á Laugardalsvelli. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, talaði um hryðjuverkaárásina í Barcelona á fréttamannafundi City í dag. Guardiola var leikmaður Barcelona í rúman áratug og þjálfaði liðið í fimm ár.

„Hugur minn er hjá fórnarlömbum árásarinnar. Barcelona mun vakna á ný og sýna fólki hversu falleg Katalónía virkilega er,“ sagði Guardiola, áður en talið barst að liði City og komandi leik við Everton á mánudag.

„Everton er með frábært lið og hafa keypt marga góða leikmenn. Þetta er eitt besta liðið í deildinni, ég er handviss um það,“ sagði Guardiola. Hann er í leit að miðverði og hefur meðal annars boðið í Jonny Evans hjá West Brom.

„Hann er leikmaður West Brom. Við munum sjá til hvernig markaðurinn þróast. Ég veit hvernig þetta félag vinnur, sumir hlutir eru mögulegir og sumir ekki. Ég trúi því að mínir leikmenn séu bestir og mun ákveða hvað er best að gera til þess að halda áfram að styrkja liðið,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert