Hafa bæði bensín og hugmyndafræði

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger hjá enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal tók blaðamannafund sinn snemma í dag fyrir leik liðsins á morgun gegn Newcastle og skaut lauflétt á Manchester City sem er taplaust á toppnum.

Manchester City hefur 49 stig í 1. sæti og hefur unnið 15 leiki í röð í deildinni og hefur 11 stiga forskot á Manchester United þegar deildarkeppnin er ekki hálfnuð.

Wenger stýrði Arsenal til sigur í ensku úrvalsdeildinni með „hinum ósigrandi“ Skyttum tímabilið 2003-2004 og var beðinn um að gefa sitt mat á hvort City gæti leikið þann leik.

„Við höfðum ekkert bensín en hugmyndafræði. Þeir hafa bensín og hugmyndafræði,” sagði Wenger um lið Pep Guardiola og félaga. Aðspurður hvað hann ætti við með bensíni sagðist hann eiga við fjárráð og peninga en Manchester City er eins og kunnugt er í eigu arabíska milljarðamæringsins Sheikh Mansour.

Á blaðamannafundinum kom einnig fram að miðjumaðurinn Aaron Ramsey verði frá í þrjár vikur vegna tognunar aftan í læri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert