Aron Einar meiddist á nýjan leik

Aron Einar Gunnarsson í leiknum gegn Króötum á HM í …
Aron Einar Gunnarsson í leiknum gegn Króötum á HM í sumar. AFP

Enn verður bið á því að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson leiki með nýliðum Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu tímabili.

Neil Warnock knattspyrnustjóri Cardiff greindi frá því á vikulegum fréttamannafundi í morgun að Aron Einar hafi aftur orðið fyrir meiðslum á æfingu í vikunni og hann muni ekki taka þátt í leiknum gegn Englandsmeisturum Manchester City á morgun en liðin eigast við á heimavelli Cardiff.

Aron Einar hefur verið að glíma við meiðsli í hné en fyrir leikinn á móti Chelsea um síðustu helgi sagði Warnock að Aron gæti hugsanlega spilað en ekkert varð af því.

Landsliðsfyrirliðinn hefur ekkert spilað frá því hann lék með íslenska landsliðinu í lokaleiknum gegn Króötum í riðlakeppni HM í Rússlandi og var hans sárlega saknað í leikjunum á móti Svisslendingum og Belgum í Þjóðadeild UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert