Fengu ekki að hitta Özil

Mesut Özil fagnar marki með Arsenal.
Mesut Özil fagnar marki með Arsenal. AFP

Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þjóðverja í knattspyrnu, var meinað að hitta Mesut Özil á æfingasvæði Arsenal á dögunum en Löw vildi ræða við leikmanninn um þá ákvörðun hans að segja skilið við þýska landsliðið.

Löw og Oliver Bierhoff, íþróttastjóri þýska knattspyrnusambandsins, voru í London í vikunni þar sem þeir voru viðstaddir lokahóf FIFA á mánudagskvöldi. Þeir gerðu sér ferð á æfingavæði Arsenal í Colney en komu þar að lokuðum dyrum.

Þýska blaðið Bild greinir frá því að Löw og Bierhoff hafi verið reknir í burtu að skipan Uneil Emery, knattspyrnustjóra Arsenal.

Heimsóknin hafði verið skipulögð og hittu þeir Löw og Bierhoff þýsku landsliðsmennina Bernd Leno og Shkodran Mustafi í móttökusal Arsenal en náðu ekki að ræða við Özil.

„Við hefðum viljað ræða við Mesut en við verðum að virða það að hann vildi ekki ræða við okkur á þessum tímapunkti,“ segir Bierhoff við Bild.

Löw sagði nýlega að hann hafi oft reynt að ná sambandi við Özil en án árangurs.

Özil, sem hefur spilað 92 leiki með þýska landsliðinu, skorað 23 mörk og gefið 40 stoðsendingar, ákvað að segja skilið við landsliðið eftir HM í júlí. Özil sagði að ras­ismi væri við lýði inn­an þýska knatt­spyrnu­sam­bands­ins og sakaði knatt­spyrnu­sam­bandið, for­seta þess, stuðnings­menn og fjöl­miðla um að koma fram við landsliðsmenn af tyrk­nesk­um upp­runa með öðrum hætti en aðra leik­menn landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert