Chelsea getur stigið stórt skref

Leikmenn Chelsea hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum …
Leikmenn Chelsea hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni. AFP

Chelsea getur tekið stórt skref í átt að sæti í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld þegar liðið tekur á móti Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í lokaleik 35. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Úrslitin um páskana hafa verið Chelsea afar hagstæð en allir þrír keppinautar liðsins í baráttunni um þriðja og fjórða sætið, Tottenham, Arsenal og Manchester United, töpuðu sínum leikjum.

Tottenham tapaði 1:0 fyrir Manchester City, Arsenal tapaði óvænt heima gegn Crystal Palace, 2:3, og Manchester United steinlá gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton, 4:0, á Goodison Park í gær.

Tottenham er með 67 stig, Arsenal 66, Chelsea 66 og Manchester United 64 stig en ljóst er að tvö þessara liða fylgja Liverpool og Manchester City í Meistaradeildina 2019-20. Chelsea mun þó eftir leikinn í kvöld vera með einum leik meira en keppinautarnir þrír sem allir eiga eftir einn frestaðan leik.

Liðin sem slást um Evrópusætin eiga þessa leiki eftir:

67 Tottenham: Brighton (heima), West Ham (heima), Bournemouth (úti), Everton (heima).

66 Arsenal: Wolves (úti), Leicester (úti), Brighton (heima), Burnley (úti).

66 Chelsea: Burnley (heima), Manchester United (úti), Watford (heima), Leicester (úti).

64 Manchester United: Manchester City (heima), Chelsea (heima), Huddersfield (úti), Cardiff (heima).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert