Breytir um taktík eftir fjóra leiki

Vincent Kompany og Anderlecht hafa ekki farið vel af stað …
Vincent Kompany og Anderlecht hafa ekki farið vel af stað í belgísku A-deildinni á þessari leiktíð. AFP

Vincent Kompany, þjálfari belgíska knattspyrnufélagsins Anderlecht, og varnarmaður liðsins hefur ákveðið að breyta um taktík eftir fjórar fyrstu umferðir tímabilsins í Belgíu en það eru fjölmiðlar þar í landi sem greina frá þessu.

Kompany tók við stjórnartaumunum hjá Anderlecht í sumar þegar hann kom til félagsins á frjálsri sölu frá Manchester City þar sem hann hafði verið fyrirliði frá árinu 2008. Anderlecht er með 2 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína en liðið hefur tapað tveimur leikjum og gert tvö jafntefli.

Liðið hefur ekki byrjað belgísku A-deildina jafn illa í 21 ár en Kompany ætlar frá og með deginum í dag að stíga til hliðar sem þjálfari liðsins á leikdögum og leyfa Simon Davies, aðstoðarþjálfara liðsins að undirbúa og stýra liðinu.

Kompany verður hins vegar fyrirliði í leikjum liðsins og mun sjá um að leiða liðið, inn á vellinum en allar ákvarðanir, sem snúa að liðinu á leikdegi, verða teknar af aðstoðarþjálfaranum Davies.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert