Báðu um að Solskjær yrði ekki rekinn

Ole Gunnar Solskjær var ánægður með sína menn gegn Tottenham.
Ole Gunnar Solskjær var ánægður með sína menn gegn Tottenham. AFP

Leikmenn Manchester United báðu stjórnarmenn félagsins um að reka ekki knattspyrnustjórann Ole Gunnar Solskjær áður en þeir mættu Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudagskvöldið, ef marka má frétt The Times.

Manchester United vann Tottenham 2:1 og sýndi sinn besta leik á keppnistímabilinu að margra mati.

Spjót hafa staðið á Norðmanninum vegna slæmrar byrjunar liðsins á tímabilinu en United hefur aðeins unnið fimm af fyrstu fimmtán leikjum sínum í deildinni. Götublaðið The Sun fullyrti fyrir leikinn gegn Tottenham að hann yrði rekinn ef liðið tapaði leiknum gegn José Mourinho og hans mönnum.

The Times segir að leikmennirnir hafi farið saman til forráðamanna félagsins fyrir leikinn og sagt þeim að Solskjær nyti enn fulls stuðnings þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert