Með nýjan samning til fimm ára

Steven Gerrard fagnar marki Rangers í 1:1 jafnteflisleik gegn Young …
Steven Gerrard fagnar marki Rangers í 1:1 jafnteflisleik gegn Young Boys frá Sviss í Evrópudeildinni í gærkvöld. AFP

Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins, hefur skrifað undir nýjan samning til fimm ára við skoska félagið Rangers en hann tók þar við sem knattspyrnustjóri vorið 2018.

Hann samdi þá til ársins 2022 en Skotarnir hafa nú gert enn betur og tryggt sér starfskrafta Gerrards fram á miðjan næsta áratug.

Rangers hefur á hálfu öðru ári undir stjórn Gerrards saxað talsvert á yfirburði Celtic í skoska fótboltanum og nú skilja aðeins tvö stig liðin að í úrvalsdeildinni. Rangers tryggði sér í gærkvöld sæti í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar og þetta fornfræga félag, sem hefur unnið fleiri meistaratitla í heimalandi sínu en nokkurt annað í heiminum, er að komast á toppinn á ný eftir afar erfiðan áratug sem er að baki.

„Þegar rætt var við mig um möguleikann á að framlengja samninginn var það mjög auðveld ákvörðun fyrir mig því mér líður afar vel hérna og hef á tilfinningunni að við séum í sameiningu að byggja upp eitthvað mjög sérstakt hjá þessu félagi,“ sagði Gerrard í yfirlýsingu sem Rangers sendi frá sér um samninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert