Everton dró úr Meistaradeildarvonum Hamranna

Dominic Calvert-Lewin fagnar sigurmarki sínu í dag.
Dominic Calvert-Lewin fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP

Everton gerði góða ferð til Lundúna þar sem liðið vann West Ham United með minnsta mun í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Vonir Hamranna um að tryggja sér Meistaradeildarsæti fara því minnkandi.

Leikurinn fór ansi rólega af stað og dró í raun fyrst til tíðinda þegar Everton tók forystuna á 24. mínútu. Ben Godfrey átti þá frábæra stungusendingu á Dominic Calvert-Lewin sem tók mjög gott hlaup og kláraði örugglega framhjá Lukasz Fabianski í marki West Ham, 1:0.

Skömmu síðar tók Gylfi Þór Sigurðsson frábæra aukaspyrnu af um 27 metra færi en Fabianski varði skot hans vel í horn.

Á 35. mínútu komst Richarlison svo nálægt því að tvöfalda forystu Everton þegar hann komst í gott færi eftir að Calvert-Lewin hafði skallað boltann inn í vítateiginn en Fabianski varð fast skot Brasilíumannsins.

Fjórum mínútum síðar fór Said Benrahma, vængmaður West Ham, illa að ráði sínu þegar hann skallaði frábæra fyrirgjöf Pablo Fornals yfir úr sannkölluðu dauðafæri.

Ekki var meira skorað í fyrri hálfleiknum og Everton leiddi því með einu marki í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri nokkuð rólega.

Eftir um klukkutíma leik komust heimamenn í West Ham hársbreidd frá því að jafna metin. Fornals fann þá Vladimír Coufal í kjörstöðu utarlega í teignum, Coufal náði hnitmiðuðu skoti í stöngina, þaðan barst boltinn til varamannsins Jarrod Bowen sem á einhvern óskiljanlegan hátt hitti ekki boltann af örstuttu færi og endaði boltinn að lokum í fanginu á Jordan Pickford.

West Ham hélt áfram að reyna en vörn Everton stóð allar sóknartilraunir Hamranna af sér með glans. Raunar voru það Everton sem komust nálægt því að skora aftur.

Norðmaðurinn Joshua King var nýkominn inn á sem varamaður þegar hann lét strax að sér kveða á 84. mínútu. Calvert-Lewin átti þá góða fyrirgjöf, King náði skallanum í átt að nærhorninu en boltinn small í stönginni.

Leikurinn fjaraði svo út og lauk með sterkum 1:0 útisigri Everton.

Eftir leikinn eru bæði lið í sama sæti og fyrir leik, West Ham í því fimmta og Everton í því áttunda.

West Ham getur hins vegar misst Liverpool upp fyrir sig vinni Liverpool leikinn sem það á inni, á meðan Everton getur jafnað West Ham að stigum vinni það leik sinn sem það á inni.

Yerry Mina og Michail Antonio eigast við í leiknum í …
Yerry Mina og Michail Antonio eigast við í leiknum í dag. AFP
West Ham 0:1 Everton opna loka
94. mín. Leik lokið Everton fer með góðan 1:0 sigur af hólmi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert