Einn sá besti aldrei valinn leikmaður mánaðarins

Kevin De Bruyne.
Kevin De Bruyne. AFP/Nigel Roddis

Kevin De Bruyne hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar um langt árabil þar sem hann hefur lagt upp fjöldann allan af mörkum og skorað þau allmörg sjálfur fyrir Manchester City. Þrátt fyrir það hefur hann aldrei verið valinn leikmaður mánaðarins í deildinni.

De Bruyne er nú á sínu áttunda tímabili hjá Man. City, þar sem hann hefur orðið Englandsmeistari fjórum sinnum.

Á yfirstandandi tímabili hefur hann skorað eitt mark og lagt upp sex til viðbótar í sjö deildarleikjum og samtals eru mörkin 58 og stoðsendingarnar 92 fyrir Man. City í deildinni í 214 leikjum.

De Bruyne var tilnefndur sem leikmaður septembermánaðar í ár eftir að hann lagði upp þrjú mörk í tveimur leikjum.

Marcus Rashford var valinn leikmaður mánaðarins eftir að hann skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö í tveimur leikjum og því erfiðlega hægt að andmæla valinu en það er í það minnsta athyglisvert að jafn hæfileikaríkum og drjúgum leikmanni og De Bruyne hafi aldrei hlotnast þessi heiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert