Biður um að vera seldur til Arsenal

Moises Caicedo fagnar eftir að hafa skorað fyrir Ekvador gegn …
Moises Caicedo fagnar eftir að hafa skorað fyrir Ekvador gegn Senegal á heimsmeistaramótinu í Katar í vetur. AFP/Raul Arboleda

Ekvadorski knattspyrnumaðurinn Moises Caicedo hefur beðið enska félagið Brighton um að taka tilboði Arsenal og selja sig þangað.

Brighton hafnaði 60 milljón punda tilboði í hinn 21 árs gamla miðjumann frá efsta liði ensku úrvalsdeildarinnar og forráðamenn félagsins segja að hann verði ekki til sölu fyrr en í sumar.

Caicedo skrifaði á Instagram í gærkvöld að hann væri afar þakklátur því tækifæri sem Brighton veitti honum, að spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég hef alltaf gert mitt besta fyrir liðið og ég spila ávallt fótbolta brosandi og frá hjartanu. Ég er yngstur af tíu systkinum úr fátækri fjölskyldu í Santa Domingo í Ekvador. Minn draumur hefur ávallt verið að verða sigursælasti leikmaðurinn í sögu Ekvador.

Ég er afar stoltur af því að geta orðið dýrasti leikmaðurinn í sögu Brighton, en sú upphæð myndi gera félaginu kleift að fjárfesta enn frekar og gera liðið áfram sigursælt.

Stuðningsfólk Brighton hefur gefið mér pláss í hjörtum þeirra, og þau verða alltaf í mínu hjarta, og ég vona því að þau skilji hvers vegna mig langar til að grípa þetta stórkostlega tækifæri," skrifaði Caicedo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert