Persónulegum upplýsingum óvart deilt í beinni útsendingu

AFP

Margir vinsælir streymar hafa milljónir aðdáenda og áhorfenda. Það að vera frægur fyrir að streyma getur verið svipað og að vera frægur leikari eða söngvari. Þegar vinsældir ná ákveðnum hæðum reynir fólk að halda persónulegum upplýsingum huldum fyrir sem flestum, því það getur skapað aukaáreiti og skaðað friðhelgi einstaklinga.

Þegar streymt er í beinni útsendingu frá því sem einstaklingar eru að gera í tölvunni er þó hætta á að persónulegar upplýsingar komi óvart á skjáinn ef varúðar er ekki gætt. Þeir sem fylgjast með streymurum á Twitch ættu að kannast við þá streyma sem hér að neðan hafa gert mistök í þessum tengslum.

Bjó til nýjan aðgang og sýndi óvart netfangið

Flestir þekkja PewDiePie, eða hafa heyrt á hann minnst. Hann spilar mikið Minecraft á meðan hann streymir en honum finnst einnig gaman að prófa nýja leiki í beinni útsendingu og leyfa aðdáendum að fylgjast með. Þegar hann ætlaði að prófa Call of Duty: Warzone í fyrsta sinn sýndi hann óvart netfangið sitt er hann bjó til aðgang til að spila. 

Eltihrellir deildi heimilisfanginu

Valkyrae er ein mest áberandi kvenkynsstreymirinn á Twitch. Hún lenti í því að eltihrellir deildi heimilisfangi hennar á veraldarvefinn, en hún ræddi það á streyminu sínu og segist vera hrædd og planið sé að flytja til að reyna halda friðhelginni. Á þeim tíma bjó hún ásamt vinkonum sínum, en atburðurinn neyddi þær allar til að flytja til þess að forðast áreiti.

Vinur sýndi óvart kortaupplýsingar í beinni

Pokimane lenti í svipuðu og PewDiePie, þar sem netfangið hennar sást óvart í beinni útsendingu er hún var að spila Call of Duty: Warzone í fyrsta sinn á streymi. Hún lenti í því leiðinlega atviki að kortaupplýsingum hennar var óvart deilt í beinni útsendingu er hún var að streyma frá degi sínum ásamt vinum. Einn vinur hennar sýndi óvart kreditkortið meðan á streyminu stóð. Svo heppilega vildi til að kortafyrirtækið greip hratt inn í málið og lokaði kortinu áður en hún varð fyrir miklum fjárhagslegum skaða.

Hefur deilt IP-tölunni oftar en einu sinni

Hinn vinsæli xQc hefur lent í því að deila óvart persónulegum upplýsingum í beinni útsendingu oftar en einu sinni. Alvarlegasta atvikið var þegar hann deildi óvart IP-tölu sinni, sem hann hefur þó lent í oftar en einu sinni. Í eitt skipti atvikaðist það svo að hann var nýbúinn að leita að IP-tölu sinni á veraldarvefnum og sýndi leitargluggann.

Sýndi einkaskilaboð frá vini sem m.a. innihélt símanúmer

Tfue tók þátt í streymi til styrktar góðgerðarmálum sem var á vegum MrBeast er Tfue deildi óvart persónulegum upplýsingum MrBeast. Hann sýndi einkaskilaboð milli þeirra á samfélagsmiðlinum Twitter, en í þeim skilaboðum var símanúmer MrBeast ásamt því að hann opinberaði óvart leynikóða sem gaf aðgengi að hópspjalli sem þeir báðir voru hluti af. Tfue var mikið gagnrýndur fyrir þessi kæruleysislegu mistök. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert